Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2017, Page 99
98
sem nýtir orku skammarinnar til að framkalla von og trú á betra líf. Síðast
en ekki síst reynir Bóas að tengjast Halldóri í gegnum Úraníu og fá piltinn
til að lesa bókina, skilja boðskapinn og um leið sjálfan sig og það sem þeir
Bóas eiga sameiginlegt. „Þessi bók er lítils metin,“ segir Bóas við Halldór,
en „hún geymir samt það sem hverjum manni er gott að lesa. [...] Og hún
er ekki aðeins vísindarit, saga og listaverk í frásögn, heldur ber hún þann
boðskap, þá opinberun sem –“ (49). Hann klárar aldrei setninguna en
bætir við að hann efist um að til sé bók sem sé hollari fyrir Halldór þótt
hann muni kannski ekki trúa öllu sem þar stendur. Halldór hrífst af ákafa
Bóasar og byrjar að lesa en efnið fangar ekki huga hans (101) og hann
lýkur aldrei við bókina – hann áttar sig ekki á skilaboðunum og skilur því
ekki hinsegin gjörning Bóasar.
Ómar og hómóerótískur skáldskapur
Lestur og skilningur á skáldskap er lykillinn að sjálfsskilningi þeirra sem
laðast að sama kyni í söguheimi Man eg þig löngum og í sambandi Halldórs
og Ómars er skáldskapur enn fremur hlaðinn erótískri merkingu. Ómar
er skáld og ólíkt Bóasi og Halldóri er hann myndarlegur, sjálfsöruggur og
vel stæður. Á fyrsta fundi þeirra þriggja geta hvorki Bóas né Halldór haft
augun af Ómari, Halldór finnur bæði til tilhlökkunar og kvíða yfir að hitta
Ómar aftur án þess að átta sig á af hverju (137–139) og þegar hann fer að
sofa um kvöldið sér hann skáldið fyrir sér:
Fyrir honum stendur þessi mynd skýr, jafnvel hvert smáatriði í
klæðaburði skáldsins: hvítar mansétturnar fram undan dökkbláum
jakkaermunum, dökkblátt þverbindið framan á hvítu skyrtubrjóst-
inu, egghvöss brotin í buxunum, gljáfægðir skórnir sem Halldór
var sífellt smeykur um að stíga ofan á þegar hann sat til borðs með
honum, sveipurinn í gullnu hárinu, blá augu hans, hringurinn á
baugfingrinum með rauðum steini greyptum í þykka umgerð, úrið á
hvítum grönnum úlnlið hans – – – (144)
„Skyldi karlmanni nokkurn tímann hafa verið lýst af jafn augljósri erótískri
alúð af öðrum karlmanni í íslenskri skáldsögu?“ spyr Hjálmar Sveinsson47
og undir það skal tekið hér. Lýsingarnar á Ómari eru nákvæmar og mun-
úðarfullar og minna um margt á upphafningu listamannsins Basils á hinum
unga og fagra Dorian í Myndinni af Dorian Gray eftir Oscar Wilde. Halldór
47 Hjálmar Sveinsson, Nýr penni í nýju lýðveldi, bls. 57.
Ásta KRistín BEnEdiKtsdóttiR