Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2017, Side 122
121
til Mexíkó að hitta föður sinn, sýna honum barnið sitt og segja honum
frá sambandi sínu og Róberts. En áður en hún hefur upplýst Lenna um
föður barnsins segir hann henni að Róbert sé raunverulegur faðir hennar.
Lenni segir henni einnig að móðir hennar hafi beðið hann á dánarbeðinu
að þegja yfir leyndarmálinu „þangað til Rósa yrði nógu gömul til að skilja
það“ og lofa „að fara burtu frá Rósu þegar hún væri orðin tíu ára … Svo
að hún gæti átt jafnlangan tíma með föður sínum og hún hafði dvalið hjá
Lenna.“10
Eins og sjá má er persónugallerí bókarinnar skrautlegt og sagan við-
burðarík og þar með ýmislegt að greina. Áður en viðtalið hófst var ég
búin að ákveða sjö umræðuefni og skrifa niður fjölda opinna spurninga við
hvert þeirra til að hafa til hliðsjónar.11
Eftirfarandi umræðuefni voru rædd:
1. Rósa
2. Lenni
3. Samskipti Rósu og Lenna
4. Samband Rósu og Róberts
5. Aðrar persónur (t.d. Lúna, Helena, Magdalena, Eva, Brúnn og
Blár)
6. Endir sögunnar
7. Heildarupplifun af lestrinum
Í viðtalinu reyndi ég að hafa spurningarnar sem opnastar en þó var stund-
um nauðsynlegt að spyrja leiðandi spurninga til að fá umræðuna af stað og
eins lokaðra til að fá staðfestingu á að ég hefði skilið upplifun viðmælenda
rétt. Þegar ég ræddi við konurnar gætti ég þess að láta sem minnst uppi
um mínar eigin skoðanir og túlkanir á verkinu til að koma í veg fyrir að
ég hefði áhrif á hugmyndir þeirra. Meðal þess sem vakti sérstakan áhuga
minn í niðurstöðum rannsóknarinnar var hve ólík heildarupplifun þátt-
10 vigdís Grímsdóttir, Frá ljósi til ljóss, Reykjavík: Iðunn, 2001, bls. 195. Eftirleiðis
verður vísað til sögunnar með blaðsíðutali einu í sviga.
11 Þegar viðtal er opið merkir það að rannsakandi hefur ákveðin markmið með við-
talinu og er þar af leiðandi búinn að ákveða viss umræðuefni fyrirfram og/eða
spurningar en það er að miklu leyti í höndum viðmælanda hvernig viðtalið þróast.
Aðalmarkmið rannsakanda er að setja sig í spor viðmælanda, hlusta og taka eftir
hvernig hann skilur, túlkar og skilgreinir hlutina. Í viðtölum af þessu tagi segir
viðmælandi frá með sínum eigin orðum og leitast er við að stjórna honum sem
minnst. Sjá t.d. Marilyn Licthman, Qualitative Research in Education, a User’s Guide,
bls. 191–192.
„EINS OG ÆvINTÝRI“