Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2017, Side 123
122
takenda af lestrinum var, einkum með tilliti til aðalpersónanna Rósu og
Lenna. Hér á eftir verður hún rædd og ýmsar vangaveltur settar fram um
hvers vegna konurnar brugðust við eins og raun ber vitni. Í kjölfarið geri
ég grein fyrir eigin túlkun til að sýna enn frekar hve ólík viðbrögð lesenda
geta verið.
Mismunandi viðbrögð
Þegar skáldsagan Frá ljósi til ljóss kom út, árið 2001, var henni almennt vel
tekið af gagnrýnendum dagblaðanna. Flestir þeirra bentu á að sagan væri
bæði falleg og óhugnanleg. Til dæmis sagði Steinunn Inga Óttarsdóttir í
ritdómi: „sagan virðist einföld og auðlæsileg við fyrstu sýn, textinn ljúfur
og sakleysislegur eins og Rósa sjálf, en undiraldan er þung“12 og „Frá
ljósi til ljóss er töfrandi saga, í senn heillandi og andstyggileg.“13 Sigríður
Albertsdóttir var á svipuðum slóðum og Steinunn Inga en gekk þó enn
lengra. Hún sagði meðal annars:
Á yfirborðinu er fjallað um óskaveröld sem flestir þrá; veröld skiln-
ings, hlýju, skilyrðislausrar ástar og fölskvaleysis en undir krauma
óheilindi, óhamingja, svikin loforð, vanmáttur og efi. Höfundur
pakkar alvarlegum atvikum svo vandlega inn í orðræðu ástarinnar að
það er ekki fyrr en undir lok sögu að lesandinn áttar sig á óheilind-
um textans sem er svo lúmskur í fegurð sinni að lesandinn meðtekur
nær gagnrýnislaust vanrækslu, lygi og svik. Það er ekki síst í þessum
tvöfalda texta sem galdur og – áfall sögunnar býr.14
Skrif Bergljótar Davíðsdóttur um bókina voru af öðru tagi en hjá Steinunni
Ingu og Sigríði því hún beinir sjónum sínum fyrst og fremst að fegurð sög-
unnar og lýkur sínum dómi á þessum orðum: „Lesandinn finnur eitthvað
gott tifa í hjartanu við lesturinn og í einfaldleika sínum gefur þessi bók frá
sér hlýja strauma; strauma sem leiða til einhvers góðs.“15
Tvöfalda afstaðan, að finnast sagan hvorttveggja í senn fögur og and-
styggileg, er sumpart í takt við upplifun þátttakenda í hópviðtalinu; en
12 Steinunn Inga Óttarsdóttir, „Ástin, dauðinn og sannleikurinn“, Morgunblaðið, 21.
nóvember 2001, bls. B 7.
13 Sama rit, bls. B 7.
14 Sigríður Albertsdóttir, „Myrkrið í ljósinu“, DV, 19. nóvember 2001, bls. 15.
15 Bergljót Davíðsdóttir, „Gefur frá sér hlýja strauma“, Fréttablaðið, 19. nóvember
2001, bls. 18.
GuðRún stEinÞóRsdóttiR