Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2017, Side 124
123
flestir þeirra fetuðu þó í spor Bergljótar og beindu einkum sjónum sínum
að fegurð sögunnar en ekki ljótleika hennar. vera má að bakgrunnur í
bókmenntafræði hafi einhver áhrif því Steinunn Inga og Sigríður hafa
menntun á því sviði ólíkt flestum kvennanna sem ég ræddi við.16
Áhugavert er að skoða hvernig konurnar í hópviðtalinu gera grein fyrir
afstöðu sinni til verksins. Einni konunni var til dæmis tíðrætt um fegurð
bókarinnar. Henni fannst sagan fallega skrifuð og allt í henni fallegt, líka
það ljóta. Í samtalinu sagði hún oft að hún hefði hrifist með vegna fegurð-
arinnar og benti líka á að sér fyndist sagan minna hana á ævintýri. Tvær
aðrar tóku gjarnan í sama streng, tengdu söguna ævintýrum og sögðust
heillast af frásögninni meðal annars vegna fegurðarinnar og ástríkis pers-
óna. Þegar konurnar ræddu um söguna sem ævintýri var greinilegt að þær
höfðu í huga ljúf og fögur ævintýri í anda Disney-kvikmynda; með öðrum
orðum ævintýri þar sem frásagnarfléttan er fremur óraunsæ, fegurð og
töfrar eru allsráðandi og sögulok farsæl.
Ein konan skar sig úr hópnum því hún var ætíð á öndverðum meiði.17
Hún hafði jafnan orð á að sér fyndist frásögnin óraunveruleg, einkum
persónur. Um Lenna sagði hún til dæmis:
Mér finnst hann svo óraunverulegur, hann er svo ofboðslega góður
pabbi, það lekur af honum ástúðin, þolinmæðin og umhyggjan. Og
svo hverfur hann og fer að búa með þessari mellu í Mexíkó, hún er
svo lík Rósu [Cordovu]. Mér finnst hann svo óraunverulegur.
Og bætti síðan við að hún hefði hvorki haft samúð með honum né sam-
kennd því henni hefði ekki fundist hann vera raunverulegur. Hún sagði
líka að sér fyndist umburðarlyndið í bókinni orka á hana eins og lygi og var
fremur írónísk í málrómi þegar hún sagði:
Það er rosalegt umburðarlyndi hjá öllum í þessari bók. Það væri ekki
slæm veröld ef allir væru svona umburðarlyndir, já elskan er það, jæja
pabbi minn ég elska þig, jæja ertu að fara frá mér. Umburðarlyndið!
Ég beið alltaf eftir í lokin að þetta væri allt lygi, ekki þetta með
hverra manna hún [þ.e.a.s. Rósa] væri. Heldur að hún vaknaði upp á
geðdeild og læknirinn vekti hana. Eða eitthvað, af því það eru allir í
bókinni góðir, ljúfir og elskulegir. … Mér fannst það lygi. …
16 Ein kvennanna er með meistaragráðu í íslenskum bókmenntum og var valin í hóp-
inn af þeim sökum.
17 vert er að taka fram að það var ekki bókmenntafræðingurinn í hópnum.
„EINS OG ÆvINTÝRI“