Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2017, Side 155
154
svavaR HRafn svavaRsson
Díonysosar eða Bakkosar tóku þátt í villtum samkomum til heiðurs guð-
inum, en fengu einnig leynilegar leiðbeiningar um ferðalagið yfir móðuna
miklu, þannig að þeir gætu öðlast guðdómlega hamingju að lokum. Þessar
upplýsingar hafa varðveist á gullflögum eða blöðum (Totenpässe – vega-
bréf hinna dauðu) sem fundist hafa í gríska heiminum. Hið elsta fannst í
Hipponíon í Kalabríu, líklega frá því um 400.21 Markmið ferðarinnar var
Sælueyjan, staðurinn sem Hesíodos hafði kynnt til sögunnar sem bústað
hetjanna, og Pindar vísar til (2. ólympíska drápan 58–70 og brot 131a).
Þeir sem voru innvígðir og fylgdu leiðbeiningunum gátu vonast eftir því
að komast til þessa staðar. Það er ekki ljóst hvað kom fyrir þá sem ekki
voru innvígðir. Kannski enduðu þeir í Hadesarheimi Hómers. Kannski var
þeim refsað fyrir hirðuleysið. Alltént er líklegt að launhelgar Bakkosar hafi
lofað áhangendum sínum sælu fyrir handan. Innan þessara bókmennta er
einnig einhver tenging milli þessara handanverðlauna og réttlætis í lifanda
lífi, jafnvel þótt greinarmunurinn sé alls ekki skýr á milli réttlætis og þess
að hafa vígst helgunum.22
Einhvern tíma, líklega á fimmtu öld, fóru launhelgar Bakkosar að skar-
ast við launhelgar Orfeifs, sem eru jafnvel enn torræðari. Saman fóru sögur
um sköpun heimsins og guðanna sem voru aðrar en sú sem finna má hjá
Hesíodosi. Það er mögulegt að um sé að ræða áhrif frá Austurlöndum
nær.23 Innvígslur og helgihald einkenndust af hugmyndinni um hreinsun,
rétt eins og Platon lýsir í Ríkinu; í gegnum launhelgarnar „með fórnum og
leikjum [er] hægt að fá aflausn og hreinsun af glæpum bæði fyrir þetta líf
og eftir dauðann. Síðarnefndu hreinsanirnar, sem þeir kalla vígslur, leysa
okkur undan böli hinum megin, en verstu píslir bíða þeirra sem engar
fórnir færa“ (Ríkið 364e5–365a4).24
21 Texta og túlkanir má finna hjá F. Graf og S.I. Johnston, Ritual Texts for the Afterlife:
Orpheus and the Bacchic Gold Tablets, Lundúnum: Routledge, 2007; R.G. Edmonds,
The Orphic Gold Tablets and Greek Religion: Further Along the Path, Cambridge:
Cambridge University Press, 2011; um lýsingar á neðanheimsferðalögum, sjá R.G.
Edmonds, Myths of the Underworld Journey: Plato, Aristophanes, and the ‘Orphic’ Gold
Tablets, Cambridge: Cambridge University Press, 2004.
22 Um þessar launhelgar, sjá Burkert, Religion, bls. 290–95.
23 Sjá M.L. West, Early Greek Philosophy and the Orient, Oxford: Oxford University
Press, 1971, bls. 217, leggur til gríðarmikil áhrif frá Austurlöndum nær á árunum
550–480.
24 Þýðingar úr Ríki Platons eru eftir Eyjólf Kjalar Emilsson: Platon, Ríkið, Reykjavík:
Hið íslenska bókmenntafélag, 1991.