Tímarit Máls og menningar - 01.06.2014, Blaðsíða 43
S j ó n t r u f l a n i r
TMM 2014 · 2 43
Brynja kinkaði kolli. „Mér fannst eins og einhver reyndi að toga í mig
eða eitthvað. Mjög krípí. Ég veit ekki hvað ég hefði gert ef ég hefði verið ein
heima. Ég klessti mér alveg uppvið þig, þá leið mér aðeins betur. Þú stein-
svafst auðvitað, hraust hástöfum.“
Brynja leit á mig og brosti dauflega. „Ég ætla að vera heima í dag. Ég er
ekki í stuði til þess að fara í vinnuna.“
„Mér líst vel á það. Þú hefur gott af því að hvíla þig aðeins. Hvernig er
sjónin annars?“
„Mjög fín. Það er magnað að fara á fætur og sjá bara allt. Ég sé betur en
ég gerði með gleraugunum. Ég sé húsnúmerið á húsinu hérna á móti,“ sagði
Brynja og kinkaði kolli í átt að glugganum. „Svo sé ég hverja einustu bólu og
hrukku á þér,“ sagði hún og blikkaði mig.
Ég fékk mér kaffi og ristað brauð og lagði síðan af stað í vinnuna. Um
hádegið íhugaði ég að hringja heim til þess að athuga hvernig Brynju liði,
en ákvað að láta vera með það. Ég vildi ekki vekja hana ef ske kynni að hún
svæfi.
Ég kom ekki eins miklu í verk í vinnunni og ég hefði viljað. Samt fór
ég talsvert fyrr heim en vanalega, það var ekki laust við að ég hefði smá
áhyggjur af Brynju. Ég var því ánægður að sjá hana brosa til mín um leið og
ég gekk inn í íbúðina. Hún sat í sófanum inní stofu og hafði greinilega hvílt
sig vel, var búin að klæða sig og leit mun betur út en um morguninn. Á sófa-
borðinu stóð tekanna ásamt tveimur bollum og skál með kexkökum.
„Tylltu þér hérna hjá okkur,“ sagði Brynja.
„Okkur?“
„Þetta er Sverrir, unnusti minn,“ sagði hún og kinkaði kolli í átt að
stólnum við hlið sér.
„Hvaða húmor er þetta?“ spurði ég.
„Hvað meinarðu?“ Brynja saup á teinu. „Ætlarðu ekki að heilsa frænku
minni?“
„Hvaða frænku?“
„Sólveigu, ömmusystur minni. Hugsaðu þér, hún bankaði bara uppá í dag.
Ég vissi ekki einusinni að amma hefði átt systur!“
Brynja var afleit leikkona. Hún gat ekki logið fyrir fimmaura, en gleði
hennar yfir þessari frænku virtist vera ósvikin. Það vakti með mér óhug.
„Brynja, þetta er ekki fyndið.“
„Sestu niður og spjallaðu við okkur. Hún Sólveig er búin að segja mér ótal
sögur frá því að þær amma voru litlar.“
„Brynja, hættu þessu!“
„Hverju?“
„Það er engin fjandans frænka hérna, ekki hræða mig svona! Fyrst þessar
ofskynjanir í nótt, síðan þetta.“
Brynja hætti að brosa. Hún náfölnaði. Og þegar hún fölnaði svona, þá
hvítnaði ég. Hún missti tebollann og teið slettist út um allt, á buxurnar