Tímarit Máls og menningar - 01.06.2014, Blaðsíða 108
R e y n i r A x e l s s o n
108 TMM 2014 · 2
þá hefur ilmur fengið allt annað hlutverk, en ekki síður skuggalegt. Í frægri
einræðu í þriðja þætti veltir Sachs fyrir sér hvað geti valdið ófriðaræði sem
rennur á mannfólkið eins og í götuslagsmálunum sem brutust út kvöldið
áður (í lok annars þáttar), þar sem Beckmesser varð fyrir barsmíðum, og
svarar sjálfum sér eins og út í hött, af því að hann finnur enga skýringu:
Hrekkjaálfur hefur víst hjálpað til: –
Glóormur fann ekki maka sinn,
hann hefur valdið skaðanum.
Það var yllirinn: – Jónsmessunótt!
Weiner þarf ekki meira til að álykta sem hér segir: „Með töfrailmandi andblæ
hefur yllitréð losað Þýzkaland undan ósvífnum óvini sínum, og illur andi
Nürnberg-borgar, hinn djöfullegi Beckmesser, hefur verið særður burt.“39
Hann kemst hins vegar í nokkurn bobba þegar finna á dæmi um illa
lyktandi gyðinga í óperunum, því að sönnunargögnin láta dálítið á sér
standa: Weiner getur aðeins nefnt þrjú dæmi sem honum hefur tekizt að grafa
upp í öllum óperum Wagners til samans. Fyrsta dæmið er að Rínardóttirin
Wellgunde kallar Alberich Schwefelgezwerg, brennisteinsdverg, sem Weiner
álítur að þýði að Alberich lykti illa, og raunar allir Niflungar, því að seinna sé
minnzt á Schwefeldampf, brennisteinsgufu, þegar Óðinn og Loki stíga niður
til Niflheima. Dæmi númer tvö er að Siegfried neitar að borða matinn sem
Mímir eldar handa honum. Hvernig getur það verið dæmi um illa lyktandi
gyðing? Jú, Weiner segir að það sé af því að maturinn sé bragðvondur, og
hjá Wagner þýði óbragð ávallt ólykt líka. Ekki veit ég hvaðan sá vísdómur
kemur (Weiner nefnir engin önnur dæmi); en í texta óperunnar er hvorki
minnzt á óbragð né ólykt. Ég játa að ég á erfitt með að sjá að þetta seinna
dæmi komi ólykt nokkuð við, og hef miklar efasemdir um hið fyrra líka.
Áður en ég kem að þriðja dæminu ætti ég, svo að allrar sanngirni sé gætt,
að nefna enn eitt dæmi sem Weiner tilgreinir, en mér finnst ekki eiga hér
heima, því að það er ekki beinlínis úr óperu, heldur frásögn af hvað Wagner
á að hafa sagt á æfingu á Rínargullinu árið 1876. Weiner lýsir þessu svo: Þegar
Carl Schlosser, sem söng Mími, gat ekki „haltrað um“ og klórað sér á bakinu
nægilega trúverðuglega á Wagner að hafa sagt: „Þú getur teygt úr bakklórinu
og klórað þér á rassinum af hjartans list! Pikkólóflautan hefur hvort sem er
svo grunsamlega smátrillu.“ Ég læt lesandanum eftir að dæma hvort þetta
sýnir að Wagner hafi hugsað sér að Mímir lykti öðruvísi en „germanir“.
[Í grein sinni um nef Wagners frá árinu 1989 tekur Weiner tilvitnunina
beint upp úr ævisögu Wagners eftir Gregor-Dellin40 og hefur á þýzku: „Sie
können das Streichen des Rückens schon weiter ausdehnen und sich herzhaft
am Arsch streichen! Die Piccolo-Flöte hat ohnedies so verdächtige Trill-
erchen.“ Hér er sagt að Mímir strjúki á sér bakið. Þegar Weiner birti svo
bók sína árið 1995 vitnar hann í enska þýðingu ævisögunnar, þar sem beina
tilvitunin er stytt og það sem á vantar endursagt; þar er talað um að Mímir