Tímarit Máls og menningar - 01.06.2014, Blaðsíða 97
R i c h a r d Wa g n e r o g g y ð i n g a r
TMM 2014 · 2 97
nazistar höfðu afskaplega lítið til þessa rits Wagners að sækja um gyðingleg
efni, því að þeir þóttust byggja kenningar sínar um gyðinga á vísindalegum
niðurstöðum um ólíka gerð kynþátta.
Stundum er fullyrt að rit Wagners um Gyðingdóm í tónlist hafi verið lykil-
rit í andgyðinglegum skrifum í Þýzkalandi á nítjándu öld. Það var vissulega
víðfrægt, eða öllu heldur alræmt, á sínum tíma, vegna þess að höfundurinn
var frægur fyrir annað – sennilega langfrægasti listamaður sem þá var
uppi, – og af sömu ástæðu er það alræmt enn þann dag í dag, þótt fáir lesi
það. Það má því vissulega segja að ritið hafi hugsanlega hjálpað til að gera
andgyðingleg ummæli og rit samkvæmishæf; einhverjir hafa kannski hugsað
með sér: „Ef Wagner getur látið eitthvað svona út úr sér, þá hlýt ég að mega
það líka.“ En í þeim straumi andgyðinglegra rita sem flæddu yfir landið var
það ekki nema eins og dropi í hafið. Það er talið að upplag ritsins hafi varla
verið meira en um það bil tvöþúsund eintök; Jonas Karlsson nefnir í ritgerð
sinni andgyðingleg rit sem komu út á nítjándu öld í eintakafjölda sem nam
tugum eða jafnvel hundruðum þúsunda.14 Hver man nú eftir þeim eða höf-
undum þeirra? En þar á meðal voru vissulega rit sem féllu betur að seinni
hugmyndum Hitlers og nazista en nokkuð það sem Wagner skrifaði.
Athugum að árið 1850, þegar Wagner birti ritgerð sína, var ekki einu
sinni búið að finna upp aríska kynstofninn. Það var ekki fyrr en á árunum
1853–55 að Joseph Arthur Gobineau, sem kallaði sig jafnan greifa, birti rit
sitt um ójöfnuð mannlegra kynþátta.15 Í þessu riti skipti hann mannkyninu
í þrjá kynstofna, hvíta, gula og svarta kynstofninn. Hvíti kynstofninn varð
síðan að „aríska kynstofninum“, sennilega árið 1861, en áður hafði orðið
„arískur“ verið málfræðihugtak, notað um indó-evrópska málaflokkinn.
Kenning Gobineaus var sú að hvíti kynstofninn væri æðri hinum, og að
mannkyninu stafaði hætta af blöndun kynstofnanna. Ástæðulaust er að
rekja kenninguna frekar hér. Það vekur þó athygli að hjá Gobineau er ekki að
finna neina andúð á gyðingum, þvert á móti hrósaði hann þeim sem „frjálsri,
sterkri og greindri þjóð“.
Wagner hitti Gobineau stuttlega árið 1876, en kynntist honum ekki fyrr
en 1880, og las þá einhver rit hans.16 Rit Gobineaus um ójöfnuð kynþátta sá
hann ekki fyrr en árið eftir (það var uppselt og illa gekk að leita það uppi
hjá fornbókasölum). Honum fundust kenningar ritsins þá afar merkilegar,
þótt hann væri ekki sammála þeim nema að litlu leyti. Hann skrifaði fáeinar
heldur torskiljanlegar greinar um efnið á þessum síðustu árum. Í einni af
allrasíðustu ritgerðum sínum, Heldenthum und Christenthum (1881),17 rekur
hann kenningar Gobineaus, að því er virðist með nokkurri velþóknun, en
vill þó ekki samþykkja þær nema að hluta til, og alls ekki svartsýnar spár
Gobineaus um hnignun aríska kynstofnsins vegna blóðblöndunar, heldur
telur Wagner, ef ég skil hann rétt, að sú heimsskipan að „göfugasti“ kyn-
stofninn ráði yfir hinum og arðræni þá sé siðlaus [unmoralisch], en að blóði
Krists hafi verið úthellt jafnt fyrir alla kynstofna og að það geti gert alla