Tímarit Máls og menningar - 01.06.2014, Blaðsíða 52
G u ð r ú n I n g a R a g n a r s d ó t t i r
52 TMM 2014 · 2
„Hvað segirðu?“
„Ég ætla að fara til Gautaborgar og heimsækja þetta fyrirtæki sem fram-
leiðir lasertækin.“
„Brynja mín …“
„Hvað?“
„Þú hlýtur að sjá að það er alger vitleysa.“
„Af hverju? Ég var fyrsta manneskjan sem lagðist undir þetta nýja tæki. Ég
er viss um að það er engin tilviljun og ég ætla bara að skoða þetta fyrirtæki
og ræða við starfsfólkið.“
„Æi, Brynja. Mér líst ekkert á að þú farir ein þarna út.“
„Hversvegna ekki? Ég hef ferðast ein um hálfan heiminn. Heldurðu að ég
geti ekki farið í smáheimsókn til Svíþjóðar?“
„Þetta er öðruvísi.“
„Sorrí. Búin að panta farið. Ég er meira að segja búin að bóka gistiheimili.“
„Ég fer með þér.“
„Ekki að ræða það, Sverrir. Ég er búin að leggja nógu mikið á þig. Þú hefur
gott af því að losna aðeins við mig á meðan ég reyni að finna einhvern flöt
á þessu rugli.“
Ég vissi að það þýddi ekki að þræta við hana. Brynja fór út í heila viku og
ég var á nálum allan tímann. Ég bað hana um að hringja í mig á morgnana,
yfir miðjan daginn og aftur á kvöldin áður en hún fór að sofa. Hún stóð við
það, nema stundum gleymdi hún að hringja á daginn. Þegar ég spurði hana
hvernig gengi var fátt um svör. Ég reyndi að ergja mig ekki á því. Þegar hún
kæmi heim þá gætum við talað almennilega saman, undir fjögur augu.
Mér hálfbrá þegar ég sótti Brynju á flugvöllinn. Hún var náföl og þreytuleg,
með dökka bauga undir augunum. Ég faðmaði hana að mér og andaði að mér
líkamslykt hennar. Það var alltaf svo góð lykt af henni, í þetta sinn blandaðist
hún þó daufum keim af svitalykt og óþvegnu hári. Brynja var þögul í bílnum
á leiðinni heim en ég vildi ekki kæfa hana með spurningaflóði. Hún þurfti
greinilega á góðri hvíld að halda.
Ég komst aldrei almennilega að því hvað hefði átt sér stað úti í Svíþjóð.
Brynja var óttalega fámál og þreytuleg fyrstu dagana eftir heimkomuna og
þótt ég væri forvitinn taldi ég best að hún segði mér frá ferðinni að fyrra
bragði. Sennilega hafði hún orðið fyrir vonbrigðum, það hafði eflaust lítið
komið út úr þessu. Hverjar voru svosem líkurnar á öðru? Ég efaðist stórlega,
eðli málsins samkvæmt, um að hún hefði fengið einhverjar haldbærar upp-
lýsingar. Það reyndist rétt hjá mér. Þegar Brynja fór loks að tala um ferðina var
það eins og að hlusta á dauðvona krabbameinssjúkling tjá sig um lúpínusafa
og afrískar nálastungur. Það voru engin rök, lítil von. Hún hafði komist að
því að fyrrverandi forstjóri fyrirtækisins, einhver Sven-Åke Sundkvist, hafði
látist eftir erfið veikindi sama dag og hún fór í aðgerðina. „Það gæti tengst
eitthvað,“ sagði hún. „Ég meina, forstjórinn deyr sama dag og ég leggst undir