Tímarit Máls og menningar - 01.06.2014, Blaðsíða 104
R e y n i r A x e l s s o n
104 TMM 2014 · 2
hans nema skóarinn Hans Sachs. Hann tekur Walther að sér, segir honum
dálítið til, og með hjálp hans (svo að ofurhratt sé farið yfir sögu) fær Walther
tækifæri til að syngja aftur, og nú fyrir allt fólkið í Nürnberg, sem fellur í
stafi af hrifningu og krefst þess að Walther fái sigurlaunin.
Þeir sem hafa reynt að sýna að Meistarasöngvararnir séu andgyðinglegt
verk virðast almennt telja að það markmið geti náðst með því að tína til
einhver atriði sem eiga að benda til að Beckmesser sé skopmynd af gyðingi.
Nákvæmlega hvernig það eitt á að sanna jafnkrassandi fullyrðingar og að
gyðingaandúð (anti-semitism) sé „ofin inn í hugmyndafræðilegan vefnað
Meistarasöngvaranna“,29 er aldrei skýrt út.
Allflestir sem reyna að sýna fram á að Beckmesser sé gyðingur gera sér
fulla grein fyrir að það er einmitt það sem borgarritari í Nürnberg á miðri
sextándu öld hefði ekki með nokkru móti getað verið: Gyðingar höfðu verið
gerðir brottrækir úr borginni árið 1499, og hefðu hvort sem er ekki mátt
gegna slíkri stöðu fyrir þann tíma, hvað þá eftir. Hvaða merkingu getur það
haft að persóna í óperu, sem getur augljóslega ekki verið gyðingur, eigi samt
einhvernveginn að vera það? Þegar Charles Rosen (sem var píanóleikari,
höfundur margra frábærra bóka um tónlist og lézt í hittifyrra, hálfníræður),
skrifaði ritdóm um nýju Grove-alfræðibókina um óperu vék hann að kenn-
ingum Barrys Millington um Beckmesser: „Sú staðhæfing Millingtons að
Beckmesser, tónlistardómarinn smásmugulegi í Die Meistersinger hafi átt að
skiljast sem skopstæling á gyðingi hefur vakið heilmikla eftirtekt, en í henni
er einungis litlu meira en korn af sannleika.“30 Millington brást ókvæða við:
Ég hef aldrei fullyrt að „Beckmesser [í Die Meistersinger] sé gyðingur„ eða að pers-
ónan „hafi átt að skiljast sem skopstæling á gyðingi.“ Það sem ég hef haldið fram, í
langri grein með ítarlegum heimildum í Cambridge Opera Journal (nóvember 1991)
er að „gyðingaandúð sé ofin inn í hugmyndafræðilegan vefnað Die Meistersinger
og að framsetning Beckmessers feli í sér andgyðingleg einkenni svo að ekki verði
um villzt.“ Niðrandi framsetning Rosens misþyrmir fullyrðingu minni næstum
jafnafkáralega og Beckmesser misþyrmir söng Walters í óperunni.31
En hver, með leyfi, er nákvæmlega munurinn á að halda því fram að persóna
í leikverki sé gyðingur og því að hún hafi nógu marga gyðinglega (eða
„andgyðinglega“) eiginleika til að ekki verði um villzt að það eigi að skilja
hana sem gyðing? Eins og Rosen segir (raunar í allt öðru samhengi) í upp-
haflegu greininni, þá er rétt eins og Millington ímyndi sér að Beckmesser
sé raunveruleg manneskja, en ekki persóna í leikverki. Sama virðist gilda
um miklu fleiri sem líta á Beckmesser sem einhverskonar gyðing, en þó
ekki. Hugsa þeir sér að hann sé ekki gyðingur samkvæmt fæðingarvott-
orði, en leiki gyðing á sviðinu? Hættir hann því þegar hann er ekki að koma
fram í óperunni? Andsvar Rosens við umkvörtun Millingtons var einfalt:
„Annaðhvort fullyrðir Millington að samtímamenn Wagners hefðu átt að
skilja Beckmesser sem skopstælingu á gyðingi, eða hann gerir það ekki.“