Tímarit Máls og menningar - 01.06.2014, Blaðsíða 64
J ó n Yn g v i J ó h a n n s s o n
64 TMM 2014 · 2
Síðasti elskhuginn er að mörgu leyti áhugaverð stúdía á einni hlið karl-
mennskunnar í samtíma okkar. Ef maður skeytti saman í eins konar víð-
mynd af reykvísku mannlífi og – ekki síst – skemmtanalífi sögu vals og bók
Bjargar Magnúsdóttur fengist býsna fróðleg mynd en nokkuð sorgleg. veik-
leiki sögunnar er stíllinn, það eru í henni of margar laskaðar setningar, en
hún vegur upp gallana með skarpri greiningu á samtímanum og vel mótaðri
aðalpersónu sem lýsir umhverfi sínu og sjálfri sér af hæfilegri íróníu.
Önnur skáldsaga sem sprettur beint úr reykvískum samtíma og lýsir
ungum karli í kreppu er Blindhríð Sindra Freyssonar. Blindhríð er spennu-
saga, sálfræðitryllir sem byrjar á áformi um morð og fjallar meðal annars um
tölvuglæpi og ofsóknir með stafræna tækni og tölvupóst að vopni. En sagan á
sér fleiri hliðar en margar spennusögur, hér er meira lagt í persónusköpun og
stíl en oft er í þeirri grein og sagan er þétt, bæði í stíl og framvindu.
Aðalpersóna Blindhríðar, veðurþulurinn Stefán, er ósköp venjulegur
náungi. Hann hefur fátt sérstakt til brunns að bera en er myndarlegur og
kemur vel fyrir og hefur í krafti þeirra eiginleika valist til að spá um veðrið
á sjónvarpsstöðinni Stöðinni. Í raun og veru er líf hans ekkert sérstaklega í
frásögur færandi – þar til hin enska viola kemur til sögunnar.
viola tekur Stefán á löpp eftir að þau eru samferða í flugvél frá London og
þau eyða saman nótt á flugvallarhóteli í Keflavík. Eftir það ævintýri heldur
Stefán sig lausan allra mála þótt eftir standi raunar samviskubit yfir hegðun
hans í hótelrúminu. En fljótlega fara Stefáni að berast tölvupóstar og sms-
skeyti frá violu og áður en hann veit af hefur sambandið milli þeirra snúist
upp í hreinræktaðar ofsóknir.
Sagan af eltihrellinum violu er bæði spennandi og þrúgandi en það eru
ekki síður afleiðingar ofsóknanna á einkalíf Stefáns og þeirra sem honum
tengjast sem gera söguna áhrifaríka. Samband hans við föður sinn er þar
miðlægt og smám saman kemur í ljós að í fortíð Stefáns leynist hræðilegt
leyndarmál. Sömuleiðis bitna árásir violu á vini Stefáns og kollega með
ömurlegum afleiðingum. Allt þetta verður til þess að Stefán brotnar smám
saman niður, hann virðist ekki geta staðið einn. Það er helst í skammvinnu
en hamingjusömu sambandi við aðra konu að hann nær að fóta sig um stund
en þegar því sleppir er hann jafn brotinn og fyrr.
Árni Þórarinsson sendi frá sér skáldsögu sem er ólík fyrri bókum hans
að mörgu leyti. Glæpurinn – Ástarsaga er, eins og titillinn gefur í skyn,
ekki hefðbundin glæpasaga. Þetta er vel fléttaður fjölskylduharmleikur þótt
fléttan verði á endanum svolítið kunnugleg. Á hinn bóginn er stíll sögunnar
og frásagnaraðferð mjög harðsoðin og það leynir sér aldrei að þar heldur
vanur krimmahöfundur á penna. Það er fróðlegt að velta fyrir sér hvernig
sagan leikur á mörkum bókmenntagreina og bera saman við bækur annarra
höfunda, íslenskra og erlendra, sem skrifa jöfnum höndum glæpasögur og
hefðbundari bókmenntalegar skáldsögur. Þórunn Erlu- og valdimarsdóttir
er augljóst dæmi í íslensku samhengi.