Tímarit Máls og menningar - 01.06.2014, Blaðsíða 13
A ð h a fa t i l f i n n i n g u f y r i r n á t t ú r u n n i í v í s i n d u m
TMM 2014 · 2 13
Samband vísindamanns við náttúruna
Og með því að iðka heildstæða hugsun í dagsins önn og í öllum okkar athöfnum tökum
við ákvarðanir sem eru vandaðri en áður og byggjast ekki aðeins á þekkingarbrotum
heldur djúpstæðri hugsun þar sem innsæi, tilfinning og siðferði fær sess […] vísindin
[eru] leiðarstef í hinni miklu hljómkviðu Jarðar (GPÓ).2
Ef við sjáum fyrir okkur veruleika mannsins sem þokkalega vel skilgreindan
heim félagslífs, tungumáls og samskiptareglna, sem hefur fundið sér stað í
hinum stóra veruleika náttúrunnar3, má segja að staður vísindamannsins
liggi á mörkum veruleika mannsins og þar sem óræð náttúran tekur við.
Sú staðsetning vísindamannsins felur því í sér talsvert óöryggi, en er jafn-
framt spennandi vettvangur tengsla við hið óþekkta sem og þróun leiða til
að kynnast því og skilja.
Starfsemi vísinda má lýsa sem ferli uppgötvana í krafti skynjunar, til-
finninga, hugsunar, úrvinnslu og framsetningar eða túlkunar í orðum og
kenningum – með það að markmiði að bæta lífið og menninguna. Þetta er
ótrúlega víðtækur ferill sem í sínu einfaldasta formi byrjar á því að gera sér
einhvers konar mynd af viðfangsefninu4 og skapa tengsl við það. Því næst
tekur við ákveðinn þroski sambandsins sem felur oft í sér rannsókn með
skipulögðum spurningum og tilgátum. Ef vel gengur er náð vissum loka-
áfanga þegar tekist hefur að skapa nýja þekkingu og koma henni á fram-
færi í orðum eða myndum sem fólk getur skilið og nýtt sér á einhvern hátt.
Umfram allt verður samband vísindamanns við viðfangsefnið að vera náið á
öllum stigum þessa ferils. Þess vegna getur það falið í sér djúpar tilfinningar
og því má halda fram að þær séu forsenda vísindalegs árangurs. Einfaldasta
dæmið um birtingarmynd slíkra tilfinninga er að undrast – að vera forvitinn
– og kynda þannig undir áhuganum á viðfangsefninu. Í upphafi sambands
vísindamanns við viðfangsefni sitt er undrunin lykilatriði því hún laðar
fram þau gildi sem felast í því að mynda þessi tengsl og þroska þau frekar.
Sá þroski leiðir svo til sköpunar og enn frekari skilnings á þeim gildum
sem viðfangsefnið og tengslin við það fela í sér. Miðlun vísindamannsins
á reynslu sinni og uppgötvunum til samfélagsins felur í sér ákveðna form-
bindingu þeirra gilda sem hann hefur laðað fram með vinnu sinni, þau verða
að skilgreindum verðmætum í mynd þekkingar eða afurða hennar. Á þessu
stigi er ánægjutilfinning vísindamannsins í fyrirrúmi, og hann nýtur þeirrar
virðingar sem verk hans veita honum.
Áður en lengra er haldið skulum við staldra við og skoða hvað það er sem
umfram allt annað greinir vísindalega starfsemi frá annarri viðleitni til að
skilja veröldina. Það sem hér um ræðir er sú viðleitni vísinda að beita ætíð
gagnrýninni hugsun, að sannreyna hugmyndir og tilgátur með einhverjum
hætti, og setja aldrei fram niðurstöður nema allt bendi til að þær gefi rétta
mynd af viðfangsefninu, en gera jafnframt skýra grein fyrir öllum fyrir-