Tímarit Máls og menningar - 01.06.2014, Blaðsíða 51
S j ó n t r u f l a n i r
TMM 2014 · 2 51
þetta kvöld varð ég meðvitaðari um það hversu alvarlegt ástandið var orðið.
Brynja leit stórkostlega vel út og var skemmtileg og skrafhreifin eins og
venjulega, en hún átti það til að spjalla út í loftið. Þá hnippti ég í hana og hún
snarþagnaði. Og þegar kunningi minn úr fjármáladeildinni heilsaði henni
að fyrra bragði svaraði hún honum ekki. Hann var reyndar kominn vel yfir
miðjan aldur, í brúnum tweedjakka með flösu á öxlunum, þannig að kannski
var það skiljanlegt. En þegar ég tók í höndina á honum áttaði hún sig, brosti
fallega til hans og kynnti sig. Þetta var þreytandi fyrir okkur bæði, þannig
að við fórum snemma heim.
Þegar heim var komið höfðum við samfarir í fyrsta sinn eftir aðgerðina.
við höfðum reynt nokkrum sinnum en þegar Brynja þurfti stanslaust að
öskra á mennina sem birtust fyrir sjónum hennar og reka þá út úr svefn-
herberginu, þá var erfitt að einbeita sér. Það var turnoff, svo ekki sé meira
sagt. Þetta kvöld fullyrti hún að nú værum við loksins bara tvö. En hún gat
ekki logið að mér. Hún fór að dæmi konunnar frá Liverpool, ætlaði að loka
augunum og reyna að venjast nálægð karlanna. Þeir höfðu alltaf verið þarna
hvort sem er, hún hefði bara ekki séð þá áður. En það varð henni ofviða, í
miðjum klíðum öskraði hún upp yfir sig og brast í grát.
„Oj, bara, nú eru þeir miklu fleiri! Helvítis klámsjúklingar!“
Brynju líkaði ágætlega við geðlækninn til að byrja með, og þótt ég vissi
ekki nákvæmlega hvað þeim færi á milli sagðist hún vera búin að fara í
ótal próf og ekkert þeirra benti til þess að hún ætti við alvarlega geðveilu
að stríða. Læknirinn átti erfitt með að greina hvað amaði að henni. Brynja
hélt því auðvitað fram að hún væri orðin skyggn eftir laseraðgerð á augum
en læknirinn átti skiljanlega erfitt með að trúa því. Hann vildi setja hana á
lyf gegn ofskynjunum og róandi töflur við svefnleysinu. Brynja þvertók fyrir
það, en ég hvatti hana til þess að prófa. Það sakaði ekki að prófa.
Lyfin gerðu lítið gagn. Svefnlyfin hjálpuðu örlítið, en sýnirnar jukust
bara ef eitthvað var. Brynja gerði tilraun til þess að fara aftur að vinna, en
átti allt of erfitt með að gera greinarmun á dánu fólki og lifandi. Það kom
ósjaldan fyrir að hún eyddi dýrmætum tíma í að sinna kúnnum með úreltar
kennitölur. Svo ekki sé talað um hversu illa það leit út, að hún sæti svona og
blaðraði út í loftið. Hún var send heim og sagt að halda sig í veikindafríinu.
Ég gerði mitt besta til þess að fara með henni út, það hlaut að vera gott fyrir
hana að skipta aðeins um umhverfi, en það var meira að segja erfitt að ganga
niður Laugaveginn. Hún var sífellt að stíga til hliðar og víkja fyrir einhverju
ósýnilegu fólki. Einusinni fórum við á hálftómt kaffihús en Brynja fullyrti að
það væru engin sæti laus. Þetta varð alltaf erfiðara og erfiðara. Ég vissi ekki
hvað ég átti til bragðs að taka.
„Ég er búin að kaupa mér miða til Svíþjóðar,“ sagði Brynja enn daginn þegar
ég kom heim úr vinnunni.