Tímarit Máls og menningar - 01.06.2014, Blaðsíða 46
G u ð r ú n I n g a R a g n a r s d ó t t i r
46 TMM 2014 · 2
Ég efast að minnsta kosti um að þetta tengist lyfinu. Þetta var ósköp saklaus
valíumtafla, ég veit ekki dæmi þess að hún valdi ofskynjunum.“
„Getur nokkuð verið að hún hafi óvart fengið einhverja aðra töflu? Eða
stærri skammt en vanalega?“
„Nei, það er alveg útilokað. Hver sjúklingur fær bara eina töflu, þær eru
kyrfilega merktar og geymdar í læstum lyfjaskáp. Það er ekki möguleiki á
neinum ruglingi.“
„Jæja. Hún kemur víst í skoðun til þín í næstu viku. Geturðu kannski haft
augun opin gagnvart einhverju óvenjulegu?“
„Jájá. Það gerum við alltaf. Er hún ekki annars bara sátt við sjónina? Ég
sagði henni að hringja í mig daginn eftir ef hún yrði vör við óvenjumikinn
augnþurrk eða óþægindi. Hún hefur ekki gert það, þannig að ég býst við að
allt hafi gengið að óskum.“
„Jújú, sjónin er fín.“
„Það var nú gott. Jæja, ég verð að rjúka, það bíður sjúklingur. En ykkur
er velkomið að hringja hvænær sem er ef það vakna einhverjar fleiri
spurningar.“
Ég kvaddi lækninn, sagði vinnufélögunum að ég yrði að sækja Brynju því
hún væri eitthvað slöpp, hljóp útí bíl og ók af stað í vinnuna hennar. Hún
beið í anddyri byggingarinnar og settist inn í bílinn fýld á svip.
„Hvernig hefurðu það?“ spurði ég.
„Ég er bara drullufúl. Jóhanna hringir í þig og biður þig um að sækja mig,
eins og ég sé einhver smákrakki eða gengin af göflunum. Af hverju ræddi
hún ekki bara við mig? Ég hefði getað komið mér sjálf heim, fyrst hún vildi
endilega losna við mig.“
„Svona, róleg. Hún bað mig ekkert um að sækja þig, ég bauðst til þess.“
„Æ, kommon, hún ætlaðist til þess. Þessvegna hringdi hún í þig.“
„Þetta var ekkert illa meint hjá henni, elskan. Þessar ofskynjanir eru ennþá
í gangi, rétt eins og í gær. Þá er best að fara bara heim að hvíla sig.“
Brynja þagði. Hún þagði langleiðina heim og ég taldi réttast að spyrja hana
ekki út í ofskynjanirnar fyrr en við höfðum komið okkur vel fyrir heima,
helst eftir að hún var búin að leggja sig, borða vel og drekka nóg af vatni. En
þegar ég beygði inn götuna okkar fór hún að snökta.
„Svona, ástin mín. Þetta er allt í lagi.“
„Nei. Þetta er ekkert allt í lagi. veistu, ég afgreiddi viðskiptavin í dag.
Talaði við hann heillengi, ráðlagði honum með lífeyrissjóð. Síðan kom
Jóhanna og spurði hversvegna ég væri að tala við sjálfa mig, og ég hló bara
að henni. Hélt að hún væri að grínast. Hann sat þarna við hliðina á henni,
Friðrik hét hann, alveg jafn ljóslifandi og hún. Ég sagði henni að gefa mér
augnablik, ég þyrfti að sinna þessum kúnna. Þá fór hún, eflaust eitthvað að
slúðra á kaffistofunni um það hversu klikkuð ég væri, áður en hún hringdi
í þig.“ Ég lagði bílnum fyrir framan blokkina okkar, sneri mér að Brynju og