Tímarit Máls og menningar - 01.06.2014, Blaðsíða 5
TMM 2014 · 2 5
Andri Snær Magnason
Leitin að Auðhumlu
Þegar ég var ungur með skáldadrauma var ég ekki heillaður af einmanalegri
innivinnu rithöfunda. En svo las ég viðtal við Guðmund Pál Ólafsson:
hann var ekki aðeins rithöfundur, hann var líka líffræðingur, kafari og
fjallamaður, hann var góður teiknari og hafði ljósmyndað hvern fugl og
helstu Perlur í náttúru Íslands. Ég man að ég hugsaði með mér. Getur verið
til skemmtilegra starf í veröldinni – en að vera Guðmundur Páll Ólafsson?
Þegar ég las Ströndina í náttúru Íslands furðaði ég mig á því að allur þessi
fróðleikur gæti rúmast í höfðinu á einum manni. Bókin var alltumlykjandi.
Hvernig gat einhver einn maður tekið þessar fallegu myndir, skrifað af þekk-
ingu um svampa og möttuldýr, grúskað í þjóðsögum og fornsögum, verið
með tilvitnanir í forna indíánaheimspeki á hraðbergi og svona dæmalaust
fundvís á ljóð í glænýrri bók eftir Gyrði Elíasson. Ég öfundaði alltaf dálítið
skáldin sem áttu ljóð í bókum hans, hugsaði stundum með mér að það væri
nú mikill heiður – að eiga ljóð í bók eftir GPÓ.
Það sem stóð upp úr fyrir mér var lífsspekin og erindið í bókunum. Hann
fjallaði um stóra samhengið, jökulsá er ekki bara vatn heldur líka jökull
og strönd og haf og líka þorskur. Eitt leiðir af öðru. Allt hangir saman.
Hann tók málstað dýranna og náttúrunnar – ekki kenna selum um hring-
orminn, hettu mávurinn er ágætur fugl og jafnvel minkurinn hafði eitthvað
aðdáunarvert í fari sínu. Hann fjallaði um skyldur okkar og ábyrgð, miðlaði
heildarsýn sem einskorðaðist ekki aðeins við náttúru heldur menningu
okkar og sögu, fortíð og framtíð. Sem upplýsingarmaður trúði hann því
að mannkynið gæti snúið af braut eyðileggingar í krafti fræðslu og þekk-
ingar. Ljóð Lindu vilhjálmsdóttur, forn heimspeki, goðafræði, ljósmyndir,
teikningar, þjóðfræði og nútímavísindi – allt voru þetta tæk efni til að skapa
heildarmynd sem við yrðum að temja okkur til að lifa af á jörðinni.
En vandinn er sá að í okkar samfélagi er heildstæða þekkingin ekki
endilega leiðin til að öðlast frið og hugarró. Sá sem elskar og þekkir Ísland
upplifir sjálfkrafa þá þjáningu sem fylgir því að vera læs á þetta land. Í lok
hinnar trylltu tuttugustu aldar settu stjórnvöld helstu Perlur á Hálendi
Íslands á brunaútsölu, áformin voru ótrúleg og fóru þvert gegn vilja og fram-
tíðarsýn stórs hluta þjóðarinnar.
Ég get sagt nákvæmlega hvaða dag hann vakti mig. Þann 19. janúar árið