Tímarit Máls og menningar - 01.06.2014, Blaðsíða 40
40 TMM 2014 · 2
Guðrún Inga Ragnarsdóttir
Sjóntruflanir
Ég man skýrt eftir þessum degi. Ég keyrði Brynju til augnlæknisins á
dimmum janúarmorgni. við vorum bæði í nýjum dúnúlpum sem við
höfðum fengið í jólagjöf. Áður en við lögðum af stað skóf ég héluna af bíl-
rúðunum meðan Brynja sat í farþegasætinu með hettuna yfir hausnum og
hendurnar milli læranna. Henni var kalt og hún var stressuð. Það var samt
engin ástæða til þess að kvíða þessari minniháttar aðgerð, sem læknirinn
hafði framkvæmt mörg hundruð sinnum áður án nokkurra vandkvæða. Það
voru engar líkur á að eitthvað færi úrskeiðis og Brynja hlakkaði mikið til
þess að losna við gleraugun. En auðvitað var ekki þægileg tilhugsun að láta
krukka í augun á sér.
við keyrðum til læknisins og settumst niður í biðstofunni. Brynja seildist í
tímarit en í stað þess að lesa það braut hún uppá hornið á einni blaðsíðunni.
Síðan þeirri næstu og svo koll af kolli. Ég tók tímaritið af henni, kreisti á
henni höndina og sagði henni að slaka á. Þegar hjúkrunarkonan kallaði hana
inná stofu óskaði ég henni góðs gengis og smellti á hana kossi. Aðgerðin tæki
ekki nema hálftíma og ég ákvað að fá mér morgunkaffi í bakaríinu á neðri
hæð þjónustumiðstöðvarinnar á meðan.
Ég man að ég fékk mér latte og sérbakað vínarbrauð. Og ég man hvað
afgreiðslustúlkan sem færði mér bakkelsið var ótrúlega sæt. Hún var svo
falleg að ég skildi ekki hversvegna hún var að vinna í bakaríi. Hún gæti
auðveldlega fengið meira spennandi vinnu bara út á útlitið. verið fyrirsæta,
leikið í auglýsingum, nú eða bara unnið í tískubúð, það hlaut að minnsta
kosti að vera skárra en að afgreiða kaffi og sætabrauð til morgunfúlla kúnna
sem flestir voru á leið í eða úr apótekinu eða heilsugæslustöðinni og báru
jafnvel kvilla sína utan á sér, miðað við fólkið sem sat við borðin í kringum
mig þennan morgun.
Ég daðraði örlítið við stelpuna þegar hún færði mér kaffið. Alveg ósjálfrátt.
Svo stóð ég sjálfan mig að því að glápa á rassinn á henni þegar hún gekk aftur
að afgreiðsluborðinu. En mér leið ekkert illa yfir því. Ekki vottur af sam-
viskubiti, þótt kærastan mín lægi á efri hæð byggingarinnar og léti sneiða
af sér hornhimnurnar á sömu stundu. Ekki vegna þess að ég væri einhver
flagari, heldur var ég, eins klént og það hljómar, einfaldlega yfir mig ást-