Tímarit Máls og menningar - 01.06.2014, Blaðsíða 44
G u ð r ú n I n g a R a g n a r s d ó t t i r
44 TMM 2014 · 2
hennar, sófann og gólfið. Ég settist niður við hlið hennar og tók utanum
hana. Sagði henni að slaka á en hún heyrði það tæpast fyrir öskrunum í
sjálfri sér.
„Þú hefur örugglega bara fengið vitlausan lyfjaskammt,“ sagði ég þegar við
lágum í sófanum um kvöldið og horfðum á bíómynd. „Læknirinn hefur
eitthvað misreiknað sig. Það er heldur ekki eðlilegt hvað þú svafst lengi eftir
aðgerðina.“
„Ég ætla rétt að vona það,“ muldraði Brynja. „En þú getur ekki ímyndað
þér hvað þetta var raunverulegt.“
Brynja svaf vel um nóttina. Ég svaf hinsvegar ekki eins vel. Ég var stöðugt
að rumska og athuga hvort það væri ekki örugglega allt í lagi með Brynju,
en hún svaf eins og ungbarn. Enda vaknaði hún einstaklega hress en ég var
hinsvegar óvenjusyfjaður.
„Ég svaf mjög vel,“ sagði hún meðan hún hellti uppá. „Engar martraðir.
Mikið er ég fegin, ég kveið því að fara að sofa í gærkvöldi.“
„Það er nú gott,“ sagði ég og settist við eldhúsborðið.
„Þú hefur örugglega rétt fyrir þér. Læknirinn hlýtur bara að hafa gefið
mér vitlausa pillu, eða kannski of stóran skammt.“
„Jamm,“ sagði ég og geispaði. Brynja leit á mig.
„Finnst þér að ég eigi að hringja í hann?“
„Hvern?“
„Lækninn.“
„Er það ekki óþarfi?“
„Jú, kannski. Ég fer í tékk hjá honum í næstu viku. Ég nefni þetta kannski
við hann þá.“
„Jájá. Reyndu bara að hugsa ekki of mikið um þetta. Það lenda allir í því
að fá einhverjar ofskynjanir einhverntímann á lífsleiðinni. Það er ekkert til
að hafa áhyggjur af.“
„Nei, nei. Kannski ekki.“ Brynja rétti mér rjúkandi kaffibolla og brosti.
„Ég sé ennþá skýrar en í gær. Þetta er alveg frábært. Hefði eiginlega átt
að fara í þessa aðgerð miklu fyrr. veistu hvað það er þægilegt að geta bara
vaknað og þurfa ekki að fálma eftir gleraugunum?“
„Það er nú gott,“ sagði ég og dreypti á kaffinu.
Þreytan setti mark sitt á vinnudaginn. Ég hélt mér gangandi með kaffi en
lá hálfdottandi fram á skrifborðið stuttu eftir hádegi, þegar síminn minn
hringdi.
„Sæl, elskan,“ svaraði ég, því ég hélt að þetta væri Brynja að hringja úr
vinnusímanum. En það var Jóhanna, samstarfskona hennar.
„Sæll, Sverrir. Jóhanna hérna.“
„Já, sæl. Afsakið, ég hélt þú værir Brynja.“