Tímarit Máls og menningar - 01.06.2014, Blaðsíða 31
F e g u r ð i n , s ú s j á l f s t æ ð a h ö f u ð s k e p n a
TMM 2014 · 2 31
Í umfjöllun um Ströndina í náttúru Íslands í Morgunblaðinu árið 1995
benti ég á að burtséð frá vægi og gæðum einstakra ljósmynda, þá sé heildar-
myndin eðlilega það sem mestu máli skiptir, og „allar þjóna myndirnar sínu
hlutverki. Sumar skreyta og aðrar skýra …“ Og það er einmitt málið – þær
skreyta og skýra, og verkið „eykur skilning á lífheimi strandarinnar og sögu
landsins, og vekur lesendur til umhugsunar um lífsstíl okkar og umgengni
við náttúruna.“
Með hverju verki urðu bækurnar sterkari og áhrifameiri, og það á svo
sannarlega við um ljósmyndirnar – og mynd- og prentvinnsla varð líka sífellt
betri. Ég tel til dæmis að í Perlum í náttúru Íslands séu ljósmyndir inn á milli
sem höfundurinn hefði ekki sett í seinni bækurnar; birtan of flöt, formin
ekki nógu hrein, myndvinnslunni jafnvel ábótavant, og áhersluatriði þeirra
ekki ljós. Ef þeir sem skoða þessi verk stoppa ekki við, þá er tilganginum
ekki náð. Formhreinar og fallega lýstar myndir fá fólk til að bremsa þegar
það flettir – óljósar ljósmyndir eins og þær sem ég nefndi sjást vart í seinni
bókunum.
Nýjasta stórvirkið, Vatnið í náttúru Íslands, er glæsilegt og í raun víð-
feðmara en hinar bækurnar, en svo nýtt og ferskt að það á enn eftir að setjast
í huga mér. Ég á mitt uppáhald, viðurkenni það fúslega, Hálendið í náttúru
Íslands finnst mér afar áhrifamikil bók, hvað ljósmyndirnar sem annað
varðar. Það einstaka verk hefur líka ýtt við mörgum – ég er einn af þeim. Þar
hefur Guðmundur Páll fundið, finnst mér, hárréttan tón í samspili mynda
og texta, sem þessi meðvitaði, þolinmóði og nákvæmi náttúruljósmyndari,
sem hikar ekki við að bíða eftir réttri birtu, fara á þá staði sem verður að
sýna á sem heildstæðastan hátt, og færa sig til, á bestu staðina þótt það kosti
meiri vinnu, til að formin verði skírari. En hann er jafnvel, enn og aftur, betri
myndstjóri en ljósmyndari, því aftur sést hvað hann kunni vel að blanda
sínum myndheimum við heima annarra til að styrkja heildarmyndina –
alltaf til að lokaafurðin, bókin stóra, yrði sem áhrifamest, og við sæjum og
skynjuðum þessa sjálfstæðu höfuðskepnu, fegurðina, í náttúru landsins.