Tímarit Máls og menningar - 01.06.2014, Blaðsíða 91
R i c h a r d Wa g n e r o g g y ð i n g a r
TMM 2014 · 2 91
Ítalir væru að drepa á móti. Þegar Eco svaraði að Ítalir hefðu háð sitt síðasta
stríð fyrir meira en hálfri öld og ættu núna enga sérstaka óvini fannst bíl-
stjóranum það alls ekki trúverðugt. Hvernig getur land ekki átt neina óvini?
Eco segist hafa gefið honum ríflegt þjórfé þegar hann steig út úr bílnum til
að bæta honum upp friðsemi Ítala og ekki hafa áttað sig á því fyrr en þá að
hann hefði átt að svara því til að Ítalir ættu sér enga utanaðkomandi óvini
vegna þess að þeir væru alltaf í stríði innbyrðis. Þetta verður svo Eco tilefni
til að velta því fyrir sér hvort þjóðir, hópar eða jafnvel einstaklingar hafi ein-
hverja innri þörf fyrir að búa sér til óvini. Eftir að hafa velt fyrir sér mörgum
dæmum, þar á meðal tilvitnunum í ritverk Wagners, virðist hann komast að
þeirri niðurstöðu að svo hljóti að vera.
Það er auðvelt að eignast óvini, því að það getum við gert meira og minna
einhliða: við getum valið þá að eigin geðþótta. við ráðum minna um það
hverjir verða vinir okkar, það krefst gagnkvæmni: við getum ekki ákveðið þá
alveg upp á eigin spýtur, þótt við verðum að veita samþykki, ef svo má segja.
En allra minnstu ráðum við um hvaða óvini eða þá hvaða vini og aðdáendur
við kunnum að eignast eftir dauðann.
Það er vissulega eins og Richard Wagner hafi verið einn af þeim sem hafa
þessa innri þörf fyrir að skapa sér óvini, og honum tókst að finna sér yfirnóg
af þeim. Hann átti það til að búa sér þá til í stórum hópum. Þótt hatur hans
á gyðingum sé illræmdast voru hóparnir fleiri sem hann hafði ímugust á;
hann hafði horn í síðu Frakka, kaþólikka og sér í lagi Jesúíta, blaðaútgefenda
og blaðamanna, allra sem fara illa með dýr, einkum vísindamanna sem
stunda kvikskurði, svo að eitthvað sé nefnt. vanþóknun hans beindist líka
að einstökum mönnum, svo sem gagnrýnandanum Eduard Hanslick (sú
vanþóknun var gagnkvæm) eða þá tónskáldum sem honum líkaði ekki við,
og þau voru býsna mörg. Hann var ófeiminn við að lýsa þessari vanþóknun
sinni í ræðu og riti, og sparaði ekki stór orð.
Wagner átti líka marga vini og aðdáendur meðan hann lifði, og síðustu
árin hafði hann venjulega dálitla hirð þeirra kringum sig. Það vekur athygli
hve margir þeirra voru gyðingar. Þótt hann hafi hatazt við gyðinga sem hóp
virðist hann vel hafa kunnað að meta þá einn og einn. Þeir sem vilja gera sem
allramest úr gyðingaandúð Wagners hafa á síðustu áratugum tekið upp þann
leiða sið að úthúða þessum mönnum og gera lítið úr þeim. Nefnum aðeins
eitt af fjölmörgum óviðfelldnum dæmum: Í bókinni Wagner: Race and
Revolution eftir Paul Lawrence Rose (London, 1992; sjá bls. 119 og áfram) eru
þeir kallaðir húsgyðingar (House-Jews eða Haus-Israeliten) og sagðir haldnir
„vel þekktu sálfræðilegu heilkenni“.5 Meðal þeirra var hljómsveitarstjórinn
Hermann Levi, sem stjórnaði frumflutningi óperunnar Parsifal. Rose vitnar
í bréf Levis til föður síns, gamals rabbína, að „það dásamlegasta sem mér
hefur hlotnast í lífi mínu eru þau forréttindi að vera náinn slíkum manni
[Wagner], og ég þakka guði fyrir það á hverjum degi“ og segir þetta vera
„sérkennilega æfingu í sjálfsniðurlægingu“, Levi er kallaður „óttafullur og