Tímarit Máls og menningar - 01.06.2014, Blaðsíða 26
26 TMM 2014 · 2
Einar Falur Ingólfsson
Fegurðin, sú sjálfstæða
höfuðskepna
Um ljósmyndarann Guðmund Pál Ólafsson
Í einu af stórvirkjum sínum, Hálendinu í náttúru Íslands, vitnar Guðmundur
Páll Ólafsson í orð Halldórs Laxness um fegurðina, að hún sé „sjálfstæð
höfuðskepna“. Og bætir við að fegurðin auki manninum innsýn í náttúruna,
þroski virðingu hans fyrir móður Jörð og efli skynjun hans. Fegurðin veki
manninn til vitundar um að vernda skuli það sem honum er kært.
Guðmundur Páll réðst í að ná taumhaldi á þessari fegurð, þótt hún væri
sjálfstæð höfuðskepna, og beitti henni á okkur lesendur sína; til að sýna
okkur þessa náttúru, fá okkur til að skilja hana, verðmæti hennar og mikil-
vægi – fá okkur til að þykja vænna um náttúruna. Í þeirri viðleitni var
ljósmyndin eitt aðalverkfæri hans. Hann réðist í að skrásetja sjálfur þessa
undurmargbreytilegu náttúru, til að sýna okkur hana, og fá okkur til að
skilja. „Show-and-tell“ er það kallað í bandarískum leik- og grunnskólum
þegar nemendur eru þjálfaðir í að standa fyrir framan skólafélagana og tala
opinberlega með því að útskýra einhvern eftirlætishlut. Guðmundur Páll var
sérfræðingur í „show-and-tell“, og sem betur fer þreyttist hann aldrei á að
sýna okkur þessi undur öll – bæði í sínum eigin ljósmyndum og myndum
sem hann valdi að nota úr safni annarra.
Það er ekki að ástæðulausu að Guðmundur Páll Ólafsson hefur verið kall-
aður endurreisnarmaður. Auk þess kallast stundum aðferðir fræðarans á við
hugmyndir upplýsingarinnar. Þegar rætt er um endurreisnina í sambandi
við alla hans sköpun, og miðlun hugmynda, þá er vísað til þeirra fjölhæfu
uppfinninga- og listamanna sem á miðöldum brutu af sér höft, knúnir áfram
af vilja og þrá til að sækja lengra, skapa frjálsir, nýta nýja þekkingu, uppgötva
og viðurkenna nýja heimsmynd; til að upplýsa aðra og skýra heiminn sem
þeir bjuggu í. Gjarnan með þekkinguna og fegurðina að vopni. Guðmundur
Páll var slíkur maður, vitur fjölfræðingur, þetta óvenjulega sambland
vísinda- og listamanns, rökhugsunar og abstrakt þankagangs, sem tókst á
við að útskýra fyrir okkur hvað við ættum í raun, og hverjar skyldur okkar
væru gagnvart umhverfinu. Og upplýsingarmaður að hætti 18. aldarmanna
var Guðmundur Páll líka, því hann virðist hafa trúað því að með fræðslu og
þekkingu mætti breyta heimum.