Tímarit Máls og menningar - 01.06.2014, Blaðsíða 81
„ Þa r e r u t r ö l l o g s y n g j a s ö n g“
TMM 2014 · 2 81
Hér gerir Þorsteinn Erlingsson það sem skáldum hefur löngum verið tamt:
hann holdgerir náttúruna og gefur henni mál. Fossniðurinn er söngur tröll-
anna sem þau syngja fyrir fjöllin. Í kvæðinu sem Þorsteinn yrkir í Dan-
mörku kemur líka fram að það sé ekki á færi annarra en Íslendinga að skilja
óðinn sem fossarnir flytja:
Hárra fjalla frægðaróð
fossarnir mínir sungu;
það hefur enginn þeirra ljóð
þýtt á danska túngu.
Í ljóði Þorsteins Erlingssonar, Fossaniður, lætur skáldið hugann hvarfla til
þess tíma þegar það óx úr grasi og heyrði tröllin syngja í fossunum fyrir
ofan bæina í Fljótshlíðinni. Fossniðurinn, tröllasöngurinn, verður skáldinu
kveikja að ljóði sem í raun fjallar um heimþrá, söknuð eftir landinu og
sælli sumartíð, þegar fossarnir sungu „sama létta braginn … upp um alla
hlíð / endilangan daginn“. Og úr því minnst er á hughrifin sem fossarnir
hafa vakið þá má nefna það sem Sigurður Nordal skrifaði forðum daga um
þann sem er þeirra voldugastur. Í ritgerð frá þriðja áratug 20stu aldar lýsir
Sigurður Dettifossi með eftirfarandi orðum:
Reynið þér að hugsa yður Dettifoss, sem ekki hafið séð hann. Jökulsá á Fjöllum, eitt af
agalegustu fljótum þessa lands, vaðlaus milli fjalls og fjöru, fellur þar ofan í endann
á 170 feta djúpri gjá. Ferðamaðurinn kemur á vesturbakkann, sér ána hverfa ofan í
gljúfurkverkina og breiðast fram af austurbrúninni. En fossinn streymir ekki í jafnri
sífellu, hann dettur. Straumþungi árinnar er svo ógurlegur, bjargið svo þverhnípt, að
vatnið þeytist fram af brúninni í óskaplegum flekum, sem springa og sundrast í fall-
inu, leysast sundur í vatnsstjörnur, sem þjóta í allar áttir og draga eftir sér úðahala.
Nafnið Dettifoss er valið með glöggri athugun. Nýir og nýir flekar detta hver ofan
á annan, hverfa ofan í mökkinn í gljúfrinu. Fossinn fellur endalaust og breytir þó
mynd á hverju andartaki. Hann seiðir augað til sín – allt í einu finnst áhorfandanum
bakkinn þjóta með hann út í geiminn með ógnarhraða og grípur ósjálfrátt hendinni
eftir einhverju að halda sér í. Og hugann sundlar eins og augað. Þessi vitlausi, til-
gangslausi tryllingur plægir sálina. Menn standa eins og frammi fyrir dómstóli, þar
sem hið dýpsta í þeim er knúið fram. vitið skilur ekki. viljinn bognar.
Lokaorðin í þessari lýsingu Sigurðar Nordals á áhrifum fossins eru býsna
athyglisverð. Hér má beinlínis skilja orð fræðimannsins sem svo að hann
sé að vísa til trúarlegrar reynslu: menn standa eins og frammi fyrir dóm-
stóli, þar sem hið dýpsta í þeim er knúið fram. Fossinn vekur í brjósti þess
sem á hann horfir djúpa kennd, snertir einhvern kjarna, einhverja kviku
sem leynist innst og dýpst í hverjum og einum. Seiðandi og tryllingslegur
flaumurinn, þetta ógnvekjandi hamsleysi náttúrunnar, er ofvaxið mann-
legum skilningi. „vitið skilur ekki“. Hughrifin eru handan allra marka
mannlegrar skynsemi, þau eru á öðru sviði. Yfirþyrmandi máttur vatns-
ins, kraftur þessarar voldugu höfuðskepnu smýgur inn í sálina, flekarnir
sem þeytast fram af klettabrúninni og springa og sundrast í fallinu, koma