Andvari - 01.01.1988, Page 40
38
JAKOB F. ÁSGEIRSSON
ANDVARI
við fótum þegar menn þóttust eiga heimtingu á fyrirgreiðslu af því einu
að þeir væru „góðir flokksmenn“.
Nokkru fyrir andlát sitt hafði Pétur forgöngu um að Nína Tryggva-
dóttir gerði sína miklu veggmynd í afgreiðslusal gjaldeyrisdeildar
bankans. Að beiðni Péturs sótti listakonan myndefnið í Egils sögu, en
myndin sýnir sem kunnugt er Aðalráð Englakonung rétta fram gull-
hringinn til Egils sem bróðurbætur eftir Vínheiðarorustu — og gat því
kallast táknræn í þessari bankadeild.
„Sem bankastjóri var Pétur þannig gerður,“ segir Aðalsteinn Jóns-
son útgerðarmaður á Eskifirði, „að ákvæði hann að styðja við bak á
manni til framkvæmda, þá hljóp hann ekki frá honum, þótt á bjátaði
fyrir manninum, ef hann hafði sýnt sig trausts verðan.“ Aðalsteinn
kvað Pétur hafa þurft að beita sér hart fyrir því að greitt yrði fyrir sér í
bankanum og síðan hafi Pétri fundist hann bera ábyrgð gagnvart
bankanum á hans rekstri. „Hann gerkynnti sér allan rekstur minn og
var jafnan heima í öllu sem að honum laut, og bollalagði með mér,
hvernig best væri að leysa ýmis vandræði í rekstrinum, sem við var að
glíma í einn tímann eða annan.“ Pétri „var það mikið yndi að fylgjast
með því lífi og fjöri, sem var í plássinu, þegar mikil var driftin á öllum
vígstöðvum. Hann vildi, að það væri kraftur og líf í rekstrinum og um
leið í plássinu . . . Aldrei ræddi hann nein bankamál, þegar hann var í
heimsókn, þau áttu að ræðast í bankanum,“ bætir Aðalsteinn við.
Guðmundur G. Hagalín segir að Benedikt Sveinsson hafi verið
„mjög vinsæll af alþýðu manna“ sem bankastjóri Landsbankans og
haft „það orð á sér, að hann vildi styðja smælingjana til sjálfsbjargar.“
Sömu sögu var að segja af syni hans. „Pétur Benediktsson var banka-
stjóri fátækra manna,“ skrifaði Gils Guðmundsson. „Pétur tók öllum
mönnum vel, ekki síður þeim, sem minna máttu sín, og lagði hann sig
fram við að leysa vanda þeirra,“ segir einn af samstarfsmönnum hans í
bankanum, Stefán Pétursson: „Munu fáir, sem nutu manngæsku hans
hafa brugðist trausti hans. Yrði Pétur hins vegar var við að menn flyttu
rangt mál, og það var hann manna skjótastur að sjá, var hann fastur
fyrir og ákveðinn, enda stórlyndur, ef á hann var leitað.“
Stefán kvað Pétur hafa verið afbragðs húsbónda: „Hann átaldi
aldrei, heldur leiðbeindi og hvatti menn til að gera betur. Stundum var
aðferð hans sú, að hann lét í ljós, að honum líkuðu ekki vinnubrögðin,
án þess að benda á gallana og varð starfsmaðurinn sjálfur að finna,
hvað aflaga hafði farið. Petta var oft erfitt, en Pétur vissi að af þessu