Andvari - 01.01.1988, Page 152
150
LOFfUR CUTTORMSSON
ANDVARI
óbundið mál. Sérstakrar athygli er vert hve hlutur biblíurita, að Biblíunni
sjálfri meðtalinni41, var enn rýr þegar hér er komið sögu. Eflaust hefur
dýrleiki valdið mestu um hina takmörkuðu útbreiðslu þeirra.
Tafla 3 lýsir þeim bókakosti sem algengastur var á ákveðnum tímapunkti;
en freistandi er að koma þessari ástandsmynd á hreyfingu, reyna að rekja
bókvæðingarferlið eftir sömu flokkun allt frá sjálfri siðskiptaöldinni og fram
eftir 18. öld. Niðurstöðu slíkrar tilraunar getur að líta í töflu 4 sem sýnir
útgáfufjölda ,,vinsælla“ trúarrita frá 1590 til 1770. Fylgt er sömu flokkun og í
töflu 3, nema hvað sleppt er biblíuritum þar sem þau komust ekki í tölu
alþýðlegra trúarrita á þessu langa tímaskeiði. Aðeins eru talin með rit sem
voru endurútgefin einu sinni eða oftar því ætla má að önnur, er birtust aðeins
einu sinni á prenti, hafi hlotið dræmar viðtökur.
Tafla 4. Útgáfufjöldi trúarrita sem komu út tvívegis eða oftar 1591-1770. (60 ára bil.)
Árabil Messusöngs- Bænakver og sálma- bækur Húspost- illur Önnur vakn- ingarrit Alls
(14)* (9) (7) (17)
1591-1650 10 7 6 14 37
1651-1710 21 15 6 21 63
1711-1770 51 18 9 19 97
* Innan sviga er sýndur fjöldi rita sem kemur fyrir í hverjum flokki.
í stuttu máli má álykta af töflu 4 að bókaútgáfa — og þá væntanlega um leið
bókvæðing heimilanna — hefur vaxið stig af stigi á þessu 180 ára tímabili.
Þótt nokkuð virðist hafa dregið úr hraða bókvæðingarinnar á síðasta árabil-
inu (1711-1770), stafar það örugglega fremur af flokkunarreglunni en því að
í reynd hafi hægst á framleiðslunni. Ennfremur er þess að gæta að hér hefur
átt sér stað upphleðsluferli með því að bækur í eldri útgáfu héldust oft lengi í
notkun eftir að ný útgáfa af þeim var komin til sögunnar. Hin viðamikla
bókaútgáfa sem Guðbrandur biskup hratt af stað kemur þannig fyrir sjónir
sem bolti er hefur hlaðið sífellt utan á sig í tímans rás. Bókvæðingin sem óx
stig af stigi á þessu langa tímabili verður að teljast höfuðþáttur í íslenskri
menningar- og fræðslusögu.