Andvari - 01.01.1988, Side 163
ANDVARI
„LAND MÍNS FOÐUR"
161
öllu nema því, sem máli skiptir: seiglunni til að berjast, uns yfir lýkur, við
þetta grimma líf. En hann er við alla jafn og ,,kann ekki neitt, sem hjá
kónginum prýðir gestinn11. Hefðarsiðir og tískutildur eru honum lokuð bók.
Hann er óspillt náttúrubarn, og því fær ekkert breytt. Allt hans strit helgast af
vilja hans og löngun til að halda lífinu í fólki sínu og fénaði, varðveita sinn litla
heim, og þótt hann sé ekki málgefinn fremur en aðrir, sem berjast upp á líf og
dauða, er hann kíminn og hress í máli, ef því er að skipta, og er annað tamara
en að kvarta yfir hlutskipti sínu. En samt erþessi óbrotni alþýðumaður ,,gáta,
svo gömul og þung“. Undir allri hörkunni leynist sú viðkvæma lund, sem
ekkert aumt má sjá og ræður ekki við grátinn, þegar gamli maðurinn verður
að skilja við glóhærðan sonarson sinn á þriðja ári eftir hálfs annars árs
samvistir.
í augum Jóhannesar úr Kötlum var svona fólk undrið sjálft — lífsundrið —
eilíft, heilagt og óumbreytanlegt. Alþýðufólkið til sjávar og sveita, bundið
landinu órjúfandi böndum, ofar allri pólitík og dægurþrasi, þegar öllu var á
botninni hvoft. Fyrir það, frá því og til þess eru ljóð hans flest, en í Lofsöng
um þá hógværu í Sjödœgru, einu alfegursta ljóði, sem íslenskri alþýðu hefur
verið ort, fékk sú tilfinning hans m.a. mál með þessum hætti, þótt synd sé að
slíta það í sundur:
Ekkert veit ég yndislegra en fólk:
það fólk sem skarar í eld hampar barni raular stöku
rúmhelginnar fólk með jól og páska í augnaráðinu
alþýðufólkið með allan sinn höfðingsskap
fólkið mitt norður í dalnum og suður í víkinni
heimsins umkomulausasta fólk.
Sannarlega lifir þetta fólk ekki á einu saman brauði:
stundum á það ekkert brauð stundum er allt brauðið tekið
frá því
en það hlær þá bara að ræningjanum eða grætur kannski
dálítið og segir:
ojæja blessaður auminginn!
og kýs hann svo á þing honum til verðugrar háðungar
— svona góðlátleg er þess hefnd.
III
í þriðju bók Jóhannesar úr Kötlum er kvæði, sem heitir Jón Sigurðsson. Hann
er munaðarleysingi, sem elst upp á sveit og er látinn gæta kvíánna frammi á
dal. Eins og síðar sést, er nafn hans ekki valið af handahófi, og afmælisdag-
urinn, 17. september, ekki heldur. Húsbændur hans sýna honum hörku og
11