Andvari - 01.01.1996, Qupperneq 119
andvari
HALLDÓR LAXNESS OG ÍSLENSKI SKÓLINN
117
prentfrelsi.17 Á meðan málið var þar til meðferðar, vorið 1943, tókst þeim
Halldóri að fá leyfi hjá Einari Arnórssyni, þáverandi kennslumálaráðherra
(og tengdaföður Halldórs til margra ára), til að gefa út Njáls sögu. Alþingi
brást að þessu sinni við með því að samþykkja þingsályktun þar sem mælst
var til þess að Bókaútgáfa Menningarsjóðs og Þjóðvinafélagsins sendi frá
sér aðra útgáfu af sögunni, „þar sem ekki finnist fingraför þeirra manna,
sem allt vilja draga niður í sorpið og jafnvel þyrma ekki okkar dýrmætustu
listaverkum eins og Njálu frá þeim örlögum“, eins og segir í þingsályktun-
artillögunni.18
Vegna þess mikla moldviðris sem fornritaútgáfa Halldórs vakti er ekki
vel Ijóst hvernig hún tengdist starfi íslenska skólans. Það liggur betur við að
tengja hana þeirri gagnrýni sem málfar og stafsetning á skáldsögum og
þýðingum Halldórs höfðu mátt þola á undanförnum árum,19 sem og póli-
tískum og persónulegum deilum Halldórs og Jónasar Jónssonar frá Hriflu
(svo virðist sem Jónas hafi staðið að baki lagasetningunni 1941 og þings-
ályktunartillögunni um útgáfu á Njáls sögu tveimur árum síðar). Sjálfur
hafði Jónas haft uppi stórtæk áform um að Menningarsjóður stæði að út-
gáfu á íslendingasögum handa almenningi; tilkynning Víkingsútgáfunnar
setti þar strik í reikninginn.20 í þessu flókna samhengi má þó greina nokkra
hlekki milli Halldórs og íslenska skólans.
Skýrustu vísbendinguna um jákvæð áhrif Sigurðar Nordals á fornritaútgáfu
Halldórs er að finna í grein sem sá síðarnefndi skrifaði haustið 1941, í kjöl-
far útgáfu sinnar á Laxdœlu. í greininni, sem ber titilinn „Stafsetning enn“,
ver Halldór útgáfuna og segir að við undirbúning hennar hafi hann meðal
annars haft samráð við „ýmsa helztu menntamenn landsins og gáfumenn
og ýmsa beztu málfræðinga vora“. Hann nefnir sérstaklega nöfn tveggja
fræðimanna við þetta tækifæri, þeirra Jóns Helgasonar og Sigurðar Nor-
dals, og bætir við: „hefur hinn síðari stutt mig að þessu verki með góðum
ráðum“.21 í fullu samræmi við þær hugmyndir sem fram komu í ritgerð Sig-
urðar um Hrafnkötlu ári áður, gerir Halldór ennfremur lítið úr heimildar-
gildi Laxdœlu í formála sínum, en leggur þeim mun meiri áherslu á söguna
sem skáldverk:
Skáldi Laxdælu eru kunn öll meðul siðmenntaðs skáldskapar. Hornsteinar hans eru
sem sagt forn yrkisefni goðkennd djúprætt í kynstofninum. Yfir þau reisir hann síðan
verk sitt af raunsærri þekkingu á mannlífi síns tíma, þrettándu aldar, og upphefur þó
söguna í hæðir rómantískrar skáldstefnu aldarinnar. Sannfróðlega viðburði og pers-
ónur sníður hann auk þess frjálslega í hendi sér og beygir undir lögmál skáldverks
síns. Vinnubrögðin eru að því leyti ekki frábrugðin aðferðum beztu sagnaskálda
seinni tíma.22
Fróðlegt er að tengja þessa síðustu setningu Halldórs þeim orðum Sigurðar