Andvari - 01.01.1996, Page 149
ANDVARI
OFBELDI TÍMANS
147
ingsins: hið ósagða sem skynsemin nær ekki tökum á. Skáldsaga Böðvars
grípur þess vegna til göfgunar sem leiðir okkur ekki að tómi eða nístandi
efa heldur fullvissu: lesandanum er ætlað að finna sinn eigin skókassa,
nema staðar örfá andartök við lífsins tré og rétta heiminum sáttarhendi um
sólarlag, eins og skáldið orðaði það forðum. í þessari göfgun sem á sér
táknmynd í sáttarhendi Stephans er viðnám sögunnar gegn ofbeldi tímans
fólgið; það er hins vegar lesandans að ákveða hvort sú göfgun er reist á
blekkingu eða sönn.
III. Og nú veistu hvað það er gott að lifa lífinu takmarkalaust
Kristín Omarsdóttir: Dyrnar þröngu
Skáldsaga Kristínar Ómarsdóttur, Dyrnar þröngu, nálgast þann vanda sem
blasir við í sögu Böðvars frá öðru sjónarhorni: frelsandi sjónarhorni fant-
asíunnar eða öllu heldur súrrealismans. Sagan er skrifuð „hinum megin“
við línuna sem dregin er á milli skynsemi og óvits. Söguhetjan og sögumað-
urinn Þórunn Björnsdóttir er holdgervingur þessarar skiptingar: annars
vegar er hún ábyrg fjölskyldukona sem hefur áhyggjur af magaveikum og
fjarstöddum manni sínum og ellefu ára dóttur, hins vegar gefur hún sig
fáránleikanum á vald og tekur þátt í ævintýrum borgarinnar Dyrnar þröngu
á Sikileyju líkt og rómönsuhetja sem aldrei getur leyft sér að efast eitt
andartak um eigin örlög. Hið viljalausa og ópersónulega sjálf hennar tvístr-
ar þeirri miðju sem liggur hefðbundnum skáldsögum til grundvallar; það er
ekki sú trygging fyrir heild sem sögumaðurinn gefur lesandanum í sögu
Böðvars og hið upphafna tungumál heimildaskáldsögunnar hjá Birni. Ann-
ars vegar stendur skáldsaga Kristínar föstum fótum í veruleikanum, hins
vegar gefur höfundur honum langt nef með því að fjalla um heim staðleys-
unnar sem í þessu tilviki er gegnsýrður af orðræðu kynferðisins. En á sama
hátt og fantasían flýr aldrei raunveruleikann heldur ákvarðast af því fé-
lagslega samhengi sem hún sprettur úr er saga Kristínar viðbragð við kyn-
ferðislegri orðræðu sem sett hefur mark sitt á vestræn samfélög síðustu
tvær aldirnar eða svo. Óheftur leikur þrárinnar leiðir í þessari sögu ekki til
útþurrkunar heimsins heldur glittir í hann - eins og horft sé innum þröngar
dyr - í tilvísunum til íslensks veruleika, einkum hins efnahagslega. Sam-
band sögunnar og veruleikans einkennist af skopstælingu kynlífsorðræð-
unnar en um leið er söguheimur hennar fjarstæðukenndur valmöguleiki
sem segir okkur að viðhorf okkar til kynlífs og kynferðis er ekki meðfætt
eða áskapað heldur á það rætur sínar í þeim áhrifum sem orðræðan hefur
haft á okkar eigin líkama.