Saga - 1961, Blaðsíða 16
190
UPPHAF KRÖFU UM ÞINGRÆÐI
lendu ráðuneyti með ábyrgð fyrir alþingi, en ekkert er
vikið að því, hver skyldi dæma í ábyrgðarmálum, og samn-
ing ábyrgðarlaga var látin bíða löggjafar um þau efni.
Hið innlenda ráðuneyti átti að hafa „erindreka“ í Kaup-
mannahöfn, og skyldi hann vera tengiliður milli þess og
konungs og bera ábyrgð gjörða sinna fyrir alþingi. Hann
átti m. ö. o. að skipa sæti í hinu sjálfstæða íslenzka ráðu-
neyti, vera eins konar ríkisráðsdeild í Kaupmannahöfn á
svipaðan hátt og norska stjórnardeildin í Stokkhólmi,
meðan ríkj asambandið hélzt milli Noregs og Svíþjóðar.
Þessi maður átti í reyndinni að annast ráðherrastörf, en
honum var þó valið erindréka heiti, en það sýnir glöggt,
að fyrir nefndinni vakir algjörlega sjálfstæð stjórn með
aðsetri í Reykjavík.
Það er varla álitamál, að Jón Sigurðsson, formaður
nefndarinnar, hefur talið, að stjórnarskrárfrumvarp
hennar legði grundvöll að þingræðisstjórn. Hins vegar
gæti verið spurning um það, hvort aðrir nefndarmenn hafi
verið á sama máli.
Skoðanir Jóns Sigurðssonar koma skýrt fram í rök-
semdum nefndarinnar fyrir því, að hún hafnaði stjórnar-
skrárfrumvarpi konungs. Þar er m. a. bent á, að það sé
ógjörlegt að leggja æðstu völd yfir Islandi í hendur á
dönskum ráðherrum, „sem í rauninni eru ekki annað en
halds- og trausts-menn hinnar dönsku þjóðar, eða með
öðrum orðum að eiga yfir sér þann flokk hennar, sem í
hvert sinn réði mestu . . .“.1) Nefndin gerir m. ö. o. ráð
fyrir, að danska ríkisstjórnin sé háð meiri hluta í ríkis-
deginum. Það er full ástæða til þess að álíta, að nefndin
hafi hugsað sér, að afstaða stjórnarinnar til alþingis yrði
með sama hætti.
Jón Sigurðsson hefur eflaust ráðið mestu um störf
nefndarinnar og á sennilega mestan þátt í samningu álits
meiri hlutans. Aldrei urðu neinar umræður um frumvarp
1) Tíðindi frá Þjóðfundinum, bls. 504 o. áfr.