Saga - 1961, Blaðsíða 120
294
GÍSLI SIGURÐSSON
vel þar til haga sem gert er í annálunum fornu. Heimildir
Gísla, hafi þær verið skriflegar, virðast horfnar með öllu.
En þeir, sem búið hafa við Hafnarfjörð og á Hvaleyri og
horft upp á þá eyðingu og landbrot og allar þær breyting-
ar, sem orðið hafa á síðustu árum, draga varla í efa frá-
sagnir um landbrot í Setbergsannál.
Næstu heimild um sandfok og landbrot af sjávargangi
hér við Hafnarfjörð er að finna í Jarðabókinni frá 1703.
Þar segir svo um Hvaleyri: „Tún spillist af sandágangi."
Og um landbrot annars staðar við f jörðinn má margt finna
í sömu heimild. Til dæmis segir um Bakka í Garðahverfi:
„Tún spillist stórlega af sjó, sem það brýtur og sand á ber
... svo menn segja, að bærinn hafi þess vegna þrisvar frá
sjó fluttur verið og sýnist túnið mestan part muni með
tíðinni undir ganga.“ Bakki er nú kominn í eyði, og það,
sem eftir er túnsins, hefur verið lagt undir annað býli í
hverfinu, Pálshús. Þá er vert að geta þess, að svo virðist
sem svipuð bergtegund sé undir jarðlaginu hjá Bakka og
Dysjum og sú, sem eyðist hvað mest yfir í Hvaleyrar-
höfða.
Melshöfði er nú eyðisker, en 1703 voru þar þrjár hjá-
leigur og verbúð. Stórbýlið Hlið á Álftanesi er nú komið í
eyði. Sjór gengur stöðugt á túnið og eyðir því. Heit laug,
sem eitt sinn var í miðju túni, er nú frammi í sjó og kem-
ur aðeins upp um blásandi fjöru. Svona mætti telja margt
dæmið til viðbótar af Álftanesi og víðar við sunnanverðan
Faxaflóa. Varla er að undra, þótt verzlunarstaðurinn við
Hafnarfjörð hafi verið færður af Hvaleyrargranda vegna
landbrots af sjávargangi 1677.
Svo víða er þess getið, að verzlunarstaðurinn við Hafn-
arfjörð hafi staðið á Hvaleyrargranda, að það verður ekki
í efa dregið. Spumingin, sem svara verður, er því sú: hvar
á Grandanum stóð verzlunarstaðurinn? Ekki er úr vegi>
að Hafnfirðingur, þótt leikmaður sé í söguvísindum, geri
nokkra tilraun til að ráða þá gátu. Tveir staðir hafa verið
tilnefndir á Grandanum: heima við túngarð og á Skiphól-