Íslenzk tunga - 01.01.1963, Side 64
62
HALLDÓIt HALLDÓRSSON
sér, að sundmagar (og jaínvel hnakkakúlur) hafi verið þurrkaðir á
kvisti (grein) og dregið síðan nafn af því, en ekki hefi ég heimildir
um það.19 Annar möguleiki er sá — og að minni hyggj u sennilegri
— að þessar merkingar séu til komnar fyrir áhrif frá sögninni kvista,
sem örugglega var höfð um að höggva af hnakkakúlur, sbr. tilvitn-
unina til Arna Magnússonar hér að framan. Slíkar merkingarlegar
áhrifsbreytingar, þ. e. áhrif orðs á merkingu annars skylds orðs, eru
merkingarfræðingum ekki ókunnar, og sennilega er þessi tegund
merkingarbreytinga algengari en ætlað er.20 Því má bæta við, að
sögnin kvisla virðist hafa verið höfð um fleiri verktök við fiskað-
gerð, sbr. það, sem Jón Grunnvíkingur segir í orðabók sinni (AM
433, fol.) :21
at qvista fisk, videtur esse idem ac vulgo at afugga, pinnas de-
secare.
Það er þannig ekki ósennilegt, að sögnin kvisla hafi almennt verið
notuð í merkingunni ‘skera af’ í máli aðgerðarmanna (sjómanna) og
‘hið afskorna’ (hnakkakúla, sundmagi) eða ‘hið ískorna’ (þunnildi)
af því fengið nafnið kvislur.
Sögnin kvista hefur vafalaust verið til í íslenzku frá upphafi vega
19 Ég spurði eitt sinn margfróðan, sunnlenzkan sjómann, Magnús Þórarins-
son, Bakkastíg 7, Reykjavík, uppalinn í Sandgerði, hvernig sundmagi hefði ver-
ið verkaður í hans ungdæmi, og lýsti hann verkunaraðferðum svo (skrifað eftir
símtali 11/2 1961):
Fyrst var sundmaginn skorinn úr fiskinum, síðan látinn í vatn eða sjó
og látinn liggja þar yfir nótt. Morguninn eftir settnst vinnukonurnar við
balana, tvær og tvær, hvor sínum megin, og tóku himnurnar af — bæði
svörtu og hvítu himnuna. Að ]iví loknu var sundmaginn breiddur á grjót-
garða og hertur þar. Að herzlu lokinni var hann dreginn upp á band og
þannig lagður inn í verzlunina.
20 Gustaf Stern kallar slíkar áhrifsbreytingar combinative analogy; sjá Mea-
ning and Change oj Meaning with Sepcial Rejerence to thc English Languagc
(Göteborgs Högskolas Árskrift XXXVIII, 1932), 207—218 (einkum 216—17).
Á íslenzku hefi ég nefnt þetta tengslálirij.
21 Hér og annars staðar, þar sem vitnað er til orðabókar Jóns Grunnvíkings,
er farið eftir Ijósmyndaeintaki Orðabókar Háskólans af AM 433, fol.