Tímarit Máls og menningar - 01.09.1988, Page 14
Tímarit Máls og menningar
allt það mikla hreystital. Samruni forngrísks og fornnorræns verður hér
býsna magnaður eins og oft áður, og það leynir sér ekki að Jón hefði verið
rétti maðurinn til að þýða Hómerskviður og Eneasarkviðu í bundið mál, ef
hann hefði snúið sér að þeim hlutum. Einstaka línur í þýðingunni á kvæði
Saxa minna raunar talsvert á hetjuljóð frá grískri fornöld, og línan:
Fagurt er fjörtjón þess rekks er fellur að sjáanda jöfri,
á sér til dæmis samsvörun í upphafslínu kvæðisins Herhvöt eftir Tyrtajos
hinn spartverska í þýðingu ofanritaðs:
Fagurt er fall þess sem deyr í fremstu víglínu í stríði
nema hvað konunghollustan er ólíkt ríkari þáttur í fari Danans.
Annars mun latínukvæði Saxa um þá Hjalta og Bjarka að mestu leyti
byggt á norrænum kvæðum sem nú eru glötuð, og víst er um það að stuðl-
aðir hættir germanskra mála hafa löngum þótt duga vel til að mæra hetju-
dáðir og vígaferli engu síður en latneskt hexametur, eins og best má sjá af
Eddukvæðum. Af sama toga og þau er Hildibrandskviðan þýska eða það
brot hennar sem varðveitst hefur og Jón þýðir, og eru því hæg heimatökin,
enda getur þýðandinn þess sjálfur í ritgerðarkorni um kvæðið að stundum
sé „unnt að fylgja þýzku orðunum án þess að víkja við að ráði“ (Ritgerða-
korn og ræðustúfar 1959, bls. 62). Allt um það hefðu fáir, ef nokkur, getað
þýtt kviðuna með jafnmikilli prýði og Jón Helgason sem sameinaði á ein-
stakan hátt kunnáttu í íslensku máli og bragsnilld, og má raunar segja sem
svo að með þessari þýðingu höfum við eignast eitt Eddukvæði í viðbót,
enda er efni þess, einvígi feðganna Hildibrands og Höðbrands með þeim
harmræna blæ sem hæfir slíkum bókmenntum eða svo vitnað sé í orð
þýðandans: „Hvergi þar sem skáld hafa stefnt feðgum saman í bardaga hef-
ur harmleikurinn aðra eins dýpt og í þessari meira en þúsund ára gömlu
kviðu“ (Ritgerðakorn bls. 76).
Harmrænn blær og dramatískur þráður einkenna einnig aðra tegund
ljóðlistar sem er sýnu látlausari í búningi og alþýðlegri, en það er hin svo-
nefnda ballaða eða danskvæði sem á einnig rætur að rekja til miðalda, þótt
þau hafi flest ekki komið upp á yfirborðið eða á prent fyrr en í söfnum
manna eins og Percys (1765), Herders (1778), Childs (1882-98) og Grundt-
vigs (1853) og því erfitt að segja til um tilurðartíma einstakra kvæða af
þessu tagi. Einkenni þeirra eru einfalt rím (oftast aabb o.s.fn'. eða abcb) og
mikil samþjöppun þar sem slitróttur efnisþráður sveipast ákveðinni dulúð,
og eru tvö kvæði sem Jón þýðir úr ensku, Hrafnakvæði og Játvarðskvæði
268