Tímarit Máls og menningar - 01.09.1988, Síða 87
Myndir á Sandi
ósamsett og sundurleitt: lífið sjálft. Reyna þó um leið að gefa því einingu
með nýjum aðferðum. Slík viðleitni svarar til þeirrar framvindu sem greint
er frá að framan og er í senn stílleg/formleg og heimspekileg.
Skáldsögur Thors Vilhjálmssonar7 eru til marks um hina breyttu stöðu.
Þeim hefur og stundum verið líkt við baroksk málverk. Skýrar útlínur
skortir, form þenjast út og dragast saman án rökbundinna takmarka, allar
línur virðast bognar og sjónarhornin margföld. Af þeim sökum er yfirsýn
nánast ómöguleg, vefurinn of flókinn til að unnt sé að rekja alla þræði hans
til enda. Formgerðir þessara sagna einkennast af óþrotlegri spennu og um-
myndun, hvíldarlausri sveiflu á milli einingar og sundrungar. Að því leyti
eru þær í samræmi við veruleika nútímans, flækjur hans og þversagnir.
Rökrétt form fyrri tíða hafa sundrast, tákn gærdagsins misst gildi sitt og ný
komið í þeirra stað til þess eins að víkja fyrir öðrum með nýjum degi. Flest
virðist afstætt, fæst skynsamlegt. Engu að síður reynir hver um sig að ríma
saman líf sitt og heiminn til að komast af, verða ekki óskapnaðinum að
bráð. Formgerðir Thors endurspegla þetta ástand: óreiðu nútímalífs þar
sem eyðileikinn hið innra, markaður óljósum línum hins horfna, hefur
breyst úr kennd stopulla stunda í veruleika vitundar, tómleika vitundar. En
þráin vaxið að sama skapi, þráin eftir skýrum línum og „raunverulegri"
sjón: að „sjá allt í senn, eygja það sem rímbundinn þátt; eða atriði í miklum
margslungnum og þéttriðnum vef, í fleiri víddum; sem sæjust samspilandi,
með þeirri sjón sem ég þrái“8.
Skáldsögur Thors myndbreytast frá andartaki til andartaks; flaumur
orða, flóð mynda. Merking þeirra virðist síkvik, söguefni og drög fléttast
saman og leysast upp án niðurstöðu, mynda samhliða rásir og umsnúast,
persónur renna saman eða skipta um andlit, sögusvið sundrast eða marg-
faldast, tímavíddir bráðna saman, minningum, draumsýnum og upplifun-
um slær í eitt án reglu. Söguhöfundurinn er að auki staddur í óreiðunni
miðri, samsamaður efninu. Textarnir virðast því við fyrstu sýn vera öng-
þveitið einbert, leikur án rökvísi, málæði. Krafan um skýrleika og festu er
hunsuð án afláts, hið gamalkunna boð: að lýst sé því sem hefur verið gert,
hugsað og lesið, hinu einræða og þekkta. En þrátt fyrir þetta eru textar
Thors rímbundnir og þéttriðnir vefir með eigin rökvísi og samtengjandi
hugsun. Merkingu sem mynduð er með öðrum hætti en í hefðbundnum
skáldsögum að vísu. Höfundi tekst að færa öngþveiti reynslunnar í listrænt
form án þess að útrýma því um leið.
Uppreisn gegn sögulegri formgerð
Greina má texta skáldsagna í þrjú svið: frásagnarsvið, myndsvið og þema-
svið. Með þá skiptingu að leiðarljósi er unnt að glöggva sig á ferli skáldsög-
341