Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.1997, Qupperneq 76
Lofsöngur hins fullreynda manns
er þaö í þessum skóla, sem hann lýkur því námi, sem nauðsynlegt var, til
þess að hann næði þeim þroska, er var eini grundvöllur þess mikla
ævistarfs, sem enn beið hans í hulinni framtíð.
III
Og enn verða þáttaskil í lífi Hallgríms. Og sami maður er valdur að
þeim skilum og áður, Brynjólfur Sveinsson. Nauðugur haíði hann tekið við
æðsta embætti á íslandi og var orðinn biskup í Skálholti. Ekki þarf að efa,
að hann hefur munað vel unga manninn, sem fallið hafði svo djúpt forðum.
Er næsta líklegt, að hann hafi gefið honum auga og fylgzt með þroska
hans. Svo mikið er víst, að Hallgrímur fær orð að finna sjálfan biskupinn í
Skálholti. Og í þeirri ferð tekur hann prestsvígslu. Brauðið var að vísu
erfitt og rýrt, Romshvalanes á Suðurnesjum. Þar bjuggu stórbokkar, sem
gátu verið erfiðir og harðir í horn að taka, ef svo bar undir. Og hætt er við,
að stundum hafi á skort virðingu þeirra fyrir nýja prestinum, sem áður
haíði stundað venjulega daglaunavinnu þar syðra og barizt við fátækt,
enda brotlegur syndari í einkalífinu. Og þó hafði orðið hér sú breyting á,
sem skipti sköpum fyrir hann.
Nokkrum árum síðar fékk hann veitingu fyrir Saurbæ á Hval-
Qarðarströnd. Þá hefst það tímabil í ævi hans, sem færði honum mesta
hamingju í jarðnesku lífi. Þar leið honum vel hartnær áratug eða þar til
veikindi tóku að stríða á hann og prestssetrið brann. Eftir það tók aftur að
halla undan fæti, enda var þá ævistarfið unnið. Passíusálmarnir voru
ortir og þeir sálmar aðrir, sem halda munu nafni hans á loft, meðan Jesús
Kristur á játendur, er mæla á íslenzka tungu. Við þekkjum öll endalok
ævi hans, er holdsveikin tærði líkama hans, hins íslenzka Jobs.
IV
Menn hafa leitað margra skýringa á því, hvers vegna Hallgrímur hafi
tekið að yrkja Passíusálmana. Um það eru ekki allir á eitt sáttir. Ekkert
verður um það sagt með vissu. Sú skoðim var sett fram fyrir nokkrum
árum, að hann hafi tekið til við sálmana, er hann kenndi þeirrar veiki,
sem síðar leiddi hann til dauða, holdsveikinnar. Sigurður Nordal hefur
sýnt fram á það í seinustu bókinni, er hann reit, að sú skýring fær ekki
staðizt. Leiðir hann gild rök að því, að hér komi trúarlegar ástæður einar
til. Finnst mér sú skýring algjörlega fullnægjandi og því óþarft með öllu
aö leita annarra. Það vekur athygli, að einmitt bókmenntafræðingurinn
hefur reynzt öðrum skyggnari á hin trúarlegu rök að baki ævi og starfi
sálmaskáldsins góða.
74
i