Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.1997, Blaðsíða 178
Þegar eldhúsið varð að helgidómi
Mér fannst sennilega fyrst framan af, að hún, ómenntuð alþýðukonan,
gæti lítið kennt mér, langskólagengnum manninum með háskólapróf upp
á vasann.
Þó það nú.
En ég skipti brátt um skoðun. Og þeir munu fáir, mennirnir, er ég hef
mætt á lífsleiðinni, sem ég hef lært meir af en henni og gildir það
hvorttveggja, praktíska guðífæði og almenn mannleg samskipti. Og mér
er ljúft að bera fram þá játningu, að sumar af dýrmætustu minningum
mínum úr prestskapnum, sem ég hef þakkað Guði sérstaklega, eru
bundnar samskiptunum við Helgu frá Brekkum, ekki sízt á heimili
hennar, en þar gisti ég oft á ferðum mínum um Mýrdalinn, bæði í
húsvitjunarferðum og af öðru tilefni.
Hún var jafnan kennd við Brekkur, þar sem hún hóf búskap, en hún
bjó lengst af í Asi, nýbýli frá Brekkum, með elzta syni sínum, Óskari, þau
árin, er ég þjónaði Mýrdalnum.
Ef ég á að vera alveg hreinskilinn, þá fór ég alls ekki fús austur í
Mýrdal til að verða prestur þar. Og stundum spurði ég Guð, hvers vegna
hann hefði sent mig í Mýrdalinn, þar sem ég þekkti engan mann, þegar
hugur minn stóð til starfa á bernskuslóðum.
Ég skildi það ekki þá, en lærðist það síðar, að tilgangur hans hafi ekki
sízt verið sá, að láta leiðir okkar Helgu frá Brekkum liggja saman, ég
vona líka hennar vegna, en kannski fyrst og fremst vegna mín sjálfs.
Enn átti ég svo ótal margt ólært af því, sem hann þurfti að kenna mér,
ungum og óreyndum presti.
Helga hafði lært margt í skóla lífsins. Ég undrast oft, hve skóli lífsins
reynist okkur misþungur, og fáum hef ég kynnzt um dagana, sem hafa
gengið í jafn harðan skóla og Helga, hvað þá harðari. Henni leið oft illa á
þeim skólabekk, en hún hafði sannarlega lært sín fræði, og þarna mætti
hún mér eins og hin reynda og vitra kona.
Jónína Helga Hróbjartsdóttir hét hún fullu nafni, fædd. á Eyrarbakka,
þar sem hún ólst upp við kröpp kjör. Eins og títt var á íslenzkum
alþýðuheimilum um og eftir seinustu aldamót, fór hún að heiman strax
eftir ferminguna og vann fyrir sér í kaupavinnu og vistum, þar til gekk
að eiga eiginmann sinn, Jóhannes Stígsson, í árslok 1918.
Jóhannes andaðist eftir fimmtán ára hjúskap og stóð Helga þá ein uppi
með tólf börn. Má geta nærri, hve fátækri ekkju hefur reynzt erfitt að
framfleyta svo stórum barnahópi, en með aðstoð elztu barnanna barðist
hún áfram í sárri fátækt, án þess að bera raunir sínar á torg.
Hún var dul um eigin hagi og henni var hvorki gjarnt sjálfri að
vorkenna sér né leyfa öðrum að vorkenna sér, enda var hún ein þeirra
manna, er aldrei bogna, hvað sem á dynur, en geta að lokum brotnað í
176