Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.1997, Qupperneq 193
Jónas Gíslason
vináttuna. Henni er líkt farið og kærleikanum: Sönn vinátta firnist ekki,
meðan báðir eru lífs!
Eg dáði Geir og vissi, að honum mætti ætíð treysta til að gjöra það eitt,
sem hann teldi rétt. Auðvitað gat honum skjátlazt, en hann var þá maður
til þess að viðurkenna mistök sín og skipta um skoðun.
Ungur varð hann borgarstjóri í Reykjavík og skipaði þann sess með
slíkri prýði, að fáir eða engir efuðust um drenglyndi hans og heiðarleika.
Hann kunni að segja nei þannig, að mönnum fyndist þeir hafa fengið góða
úrlausn mála, og já hans stóð sem stafur á bók. Geir tók við forystu
Sjálfstæðisflokksins og varð forsætisráðherra, en lenti stundum í andbyr,
eins og einatt hendir þá, er komast til æðstu metorða. En hann lét það
ekki á sig fá, heldur stýrði málum til þeirra lykta, sem hann taldi til
mestrar farsældar fyrir land og lýð.
Er á hann var ráðizt með stóryrðum í pólitískri orrahríð, var hann of
háttvís til að svara í sömu mynt. Sumir töldu hann skorta hin skæru
litbrigði þess manns, sem ætíð reynir að koma sjálfum sér á framfæri.
Honum var fyrir mestu að vita, að hann hefði hreinan skjöld, en
stundarvinsældir voru honum næsta lítils virði. Hann skapaði sér traust,
hvar sem leið hans lá.
En Geir Hallgrímsson stóð ekki einn í lífsbaráttunni. Við hlið hans var
eiginkona hans, Erna Finnsdóttir, mikil hæfileikakona, sem stóð honum
jafnfætis í lífsstarfi, er oft krafðist jafnmikils af þeim báðum, eins og oft
vill verða með hjón, er vinna trúnaðarstörf í þjóðfélaginu. Þau Geir og
Erna sóttust hvorki eftir mannaforráðum né vegtyllum, en við, er vorum
vinir þeirra og samherjar og þekktum þau bezt, ýttum þeim fram, því að
við treystum þeim flestum betur til að axla ábyrgðina, sem fylgdi því að
gegna æðstu störfum þjóðfélagsins.
Ég hafði oft á tilfinningunni, að þau hefðu bæði oft óskað þess að þurfa
ekki að lifa lífi sínu svo mjög í sviðsljósinu, heldur mega draga sig meir í
hlé frá opinberum skyldustörfum og fá að lifa eigin lífi með fjölskyldunni.
En þeim var báðum ljóst, að þau höfðu skyldum að gegna við land og lýð, og
þau hlupu aldrei frá skylduverkunum.
Alþingi er ætíð sett með guðsþjónustu í Dómkirkjunni og hefð er fyrir
því, að forsætisráðherra velji prest til að prédika. Þegar Geir varð
forsætsráðherra 1974, bað hann mig um að prédika við setningarguðs-
þjónustuna, en mér barst beiðni hans of seint. Ég hafði lofað að heimsækja
síra Jakob Á. Hjálmarsson á Seyðisfirði, prédika þar og flytja erindi um
Hallgrím Pétursson á 300. ártíð hans. Ég gat því ekki þegið boð hans og
þótti báðum miður, en mér þótti vænt um beiðni hans. Næsta ár bað hann
mig á ný að prédika við setningu Alþingis og var mér ljúft að verða við
þeirri beiðni hans.
191