Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.1997, Blaðsíða 187
Jónas Gíslason
Þjóðin var harmi lostin
Minning Bjarna Benediktssonar
Nóttin var köld og élin náðu niður undir byggð um hásumar. Þannig
geta íslenzk sumur stundum verið. Þau minna okkur á þá staðreynd, að
við byggjum norðlægt land og að mörgu leyti harðbýlt.
Þá sló skyndilega eldbjarma á næturhimininn á helgum stað, þar sem
svo margar rúnir íslenzkrar sögu hafa verið ristar.
Lítið timburhús varð eldi að bráð og fuðraði upp á svipstundu. Fyrr en
varði var öskuhrúgan ein eftir. Og nokkur stund leið, þar til upp rann
fyrir sjónarvottum, að hér hafði enn gjörzt harmsaga. Enn hafði örlaga-
atburður verið skráður á spjöld íslenzkrar sögu, atburður, er seint mun
fyrnast.
Öskurústin geymdi hinztu jarðneskar leifar forsætisráðherra íslands,
dr. Bjarna Benediktssonar, eiginkonu hans, frú Sigríðar Björnsdóttur, og
ungs dóttursonar þeirra, Benedikts Vilmundarsonar.
í einu vetfangi var svipt burt traustum forystumanni, er um árabil
hafði ótrauður staðið í fylkingarbrjósti í málefnum lands og lýðs, eiginkonu
hans, er staðið hafði með mikilli prýði við hlið manns síns í erfiðu starfí og
veitt honum styrk, og ungum sveini, er verið hafði augasteinn afa og
ömmu.
Enn hafði eldurinn skráð nýja harmsögu sínu logaletri á spjöld
íslenzkrar sögu.
Og eftir sat íslenzk þjóð hnípin og harmi lostin. Nístandi stormar næða
um sál hennar og hjarta. Hér var rofið það skarð í fylkingarbrjósti, er
seint verður fyllt til fulls.
Um þetta deilir fólk ekki, hvað sem líður skoðunum og mati á íslenzkum
stjórnmálum að öðru leyti. Allir eru sammála um, að hér hafí íslenzk þjóð
átt á bak að sjá stjórnmálaskörungi, er öllum öðrum fremur setti svipmót
sitt á sögu þjóðarinnar um árabil.
Sjónarsviptir var að Bjarna Benediktssyni.
185