Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.1997, Blaðsíða 162
Um Postulasöguna
Allstór hópur heiðingja sótti samkunduhúsin án þess að stíga skrefið til
fulls og taka gyðingatrú og voru þeir nefndir guðhræddir heiðingjar.
Þeirra er getið á fjórum stöðum í Nýja testamentinu: Lúk. 7:1-9; Jóh.
12:20; Post. 8:27-38; 10:1-2.22.
Þessir menn höfðu tileinkað sér mikið af trúarlegum og siðferðilegum
kenningum gyðingdómsins, þótt þeir tækju ekki gyðingatrú. Þeir voru
síðar móttækilegastir fyrir boðskap kristindómsins, er kristniboðar hófu
að prédika í samkunduhúsunum.
Til hvers ritaði Lúkas Postulasöguna?
Eins og fyrr greinir, segir Postulasagan ekki sögu allra postulanna og
starfs þeirra, heldur fjallar hún aðallega um tvo menn. Fyrri hluti
hennar segir mest frá Pétri postula og frumsöfnuðinum í Jerúsalem, en
síðari hlutinn segir eingöngu frá Páli og starfi hans. Áherzla er lögð á að
skýra frá samskiptum þeirra, skoðanamun og deilum, sem að lokum
leiddu til samkomulags um tilhögun starfsins að útbreiðslu trúarinnar.
I frásögninni af Pétri er lögð mest áhersla á sýnina, sem breytti afstöðu
hans til boðunar trúar fyrir heiðingja, en fram að því hafði hann talið eins
og hinir postularnir og frumsöfnuðurinn, að heiðingjarnir yrðu fyrst að
gjörast Gyðingar, láta umskerast og ganga þar með til hlýðni við lögmálið,
áður en þeir gætu orðið kristnir. Þrisvar sinnum er sagt frá sýn Péturs.
Guð þurfti að undirbúa Pétur sérstaklega fyrir þessa breytingu, enda
virðist hann hafa verið lengi að læra þetta og skilja. Nánar verður vikið að
því síðar.
Óneitanlega vekur nokkra furðu við fyrstu sýn, hve fáir postulanna
koma hér við sögu.
Fyrir nokkrum árum laukst upp fyrir mér nýr skilningur á tilgangi
Lúkasar með ritun Postulasögunnar.
Hann er alls ekki að rita samfellda sögu frumsafnaðarins og greina frá
starfi allra postulanna, heldur vakti allt annað fyrir honum. Hann ritaði
söguna í ákveðnum tilgangi.
Lúkas læknir, einn af nánustu samstarfsmönnum Páls postula, er
raunverulega að sýna fram á, að Páll hafi verið réttur postuli með sama
myndugleika og aðrir postular, valinn af Jesú Kristi sjálfum, þótt
postularnir hafi sjálfir verið búnir að velja tólfta postulann í stað Júdasar.
Og Páli var falið ákveðið hlutverk. A sama hátt og Pétur var kallaður
til að vera postuli Gyðinga, ásamt hinum postulunum, sem verið höfðu í
lærisveinahópi Jesú, meðan hann gekk hér um í mannlegu holdi, var Páll
kallaður til að vera postuli heiðingja, sem nú áttu beinan aðgang að Guði
fyrir trúna á Krist, án allrar milligöngu gyðingsdómsins.
160