Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.1997, Page 156
Urn Postulasöguna
bjargaði hann dýrmætum frásögnum frá gleymsku með guðspjalli sínu, t.d
fæðingarfrásögunum í fyrsta og öðrum kafla þess.
Lúkas átti miklu hægara um vik að rita Postulasöguna. Hann var einn
af nánustu samstarfsmönnum Páls postula og um sumt byggir hann
frásöguna á eigin reynslu, því að hann var sjálfur þátttakandi í ýmsum
viðburðum Postulasögunnar, eftir að frásögnin fjallar eingöngu um Pál
postula og starf hans. Og alþekktir eru „vér—kaflarnir", þar sem
frásögn Lúkasar skyndilega breytist úr þriðju í fyrstu persónu. Verður
vikið að þeim nánar síðar.
Það leynir sér ekki, að Postulasagan geymir ekki „samfellda sögu“ allra
postula Jesú.
Þessi grein er ekki fræðileg úttekt á Postulasögunni og boðskap hennar
og byggir ekki á gríska frumtextanum.
Mig langar fyrst og fremst að gjöra grein fyrir, hvernig augu mín
sjálfs lukust upp fyrir því, í hvaða tilgangi Postulasagan var rituð, og
leyfa öðrum að njóta þess með mér að lesa hana undir því sjónarhorni.
Almennar upplýsingar
Postulasagan er eina sögurit Nýja testamentisins og má reyndar telja
hana elztu kirkjusöguna, þótt hitt dyljist ekki, að henni er alls ekki ætlað
að Qalla um starf allra postula Drottins. Hún segir aðallega frá leiðtoga
þeirra, Símoni Pétri, og ofsækjandanum Sál, sem síðar breyttist í
postulann Pál og varð einn mikilvirkasti kristniboðinn í frumkristni.
í viðaukanum, sem fylgir nýjustu útgáfu Biblíunnar, er eftirfarandi
kynning á Postulasögunni á bls. 332:
„Postulasagan er framhald Lúkasarguðspjalls og segir frá því, hvernig
fagnaðarerindið um hinn upprisna Drottin breiddist út um heiminn.
Höfundurinn, Lúkas, sem var einn af samferðamönnum Páls, segir frá hfi
hins fyrsta kristna safnaðar og hvernig nýir söfnuðir voru stofnaðir í
Palestínu og síðan utan hennar, í Antíokkíu, borgum Litlu-Asíu,
Grikklandi og í sjálfri höfuðborg rómverska heimsveldisins. Segir mest af
ferðum Páls postula en minna af ferðum annarra, svo sem Péturs, sem
sannfærðist að lokum um það að fagnaðarerindið ætti erindi til annarra en
Gyðinga, að það skyldi boðað mönnum af öllum þjóðum, og þeir skyldu
undanþegnir boðun Gyðingdóms um umskurn og hreina fæðu.
Heimildir Lúkasar virðast hafa verið traustar, og því hefur
Postulasagan ótvírætt sögulegt gildi. En hann hefur ekki haft heimildir
um stofnun safnaða á öðrum stöðum, t.d. í Alexandríu. Bókin er sennilega
samin um 64 e.Kr.
154