Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.1997, Blaðsíða 154
Upprisan
Jesús sagði eitt sinn: „Kenning mín er ekki mín, heldur hans, er sendi
mig. Sá sem vill gjöra vilja hans, mun komast að raun um, hvort
kenningin er frá Guði eða ég tala af sjálfum mér“ (Jóh.7:16-17).
Þorir þú að reyna þetta?
Gjörir þú þér grein fyrir afleiðingum þess, ef boðskapur Jesú væri
ósannur? Enginn mun neita því, að vestræn menning á að hluta til
meginrætur sínar í boðskap Jesú Krists. Hann talaði um sjálfan sig sem
Guð, son Guðs, kominn í heiminn til þess að frelsa synduga menn og leiða
þá á ný til lífssamfélags við Guð.
Ætli nokkur neiti því, að siðaboðskapur Jesú sé háleitasti boðskapur,
sem fluttur hefur verið? Ætli menn efist ekki frekar um, að hægt sé að lifa
samkvæmt honum, uppfylla boð hans?
Ef Jesús var aðeins maður, en ekki Guð, þá blekkti hann með boðskap
sínum um sjálfan sig; þá var hann svikari, lygari. Þá byggir menning
okkar að verulegu leyti á boðskap svikara og þá gildir nákvæmlega sama
um boðskap kristinnar trúar alla tíð síðan.
Ef Jesús reis ekki upp frá dauðum, hefði hann enga hjálp að veita okkur
í dauðanum. Þá værum við jafn vonlaus og allir aðrir. Eða með orðum Páls
postula: Þá værum við enn í syndum okkar og þeir glataðir, sem dánir
eru í trú á hann.
En Páll hélt áfram í I.Kor. 15:20: „En nú er Kristur upprisinn frá dauð-
um sem frumgróði þeirra, sem sofnaðir eru.“ Þetta er hin stórkostlega
sigurvissa hvers kristins manns. Þess vegna trúum við, treystum boð-
skap Jesú. Við höfum fengið að mæta hinum upprisna og lifandi frelsara í
trúnni.
Þess vegna reynum við kristnir menn ekki að sanna upprisu Jesú til
þess að reyna að vekja trú á hann. Við boðum Krist, hinn krossfesta og
upprisna, svo að menn megi mæta honum, eignast trú og lifa fyrir hann.
Það gjörðist eitt sinn á umræðufundi austan járntjalds, að fluttur hafði
verið langur fyrirlestur, þar sem trúnni á Krist var algjörlega hafnað. Er
fyrirlesarinn hafði lokið máli sínu, stóð upp prestur úr rétttrúnaðarkirkj-
unni og spurði, hvort hann mætti segja fáein orð.
„Já,“ var svarað, „en þú mátt ekki tala lengur en fimm mínútur.“
„Eg þarf ekki meir en fímm sekúndur," svaraði hann, sneri sér að
fundarmönnum og sagði: „Kristur er upprisinn!“
Þá risu fundarmenn úr sætum og svöruðu einum rómi:
„Kristur er sannarlega upprisinn!"
Þannig hefur kristin kirkja farið að frá upphafi vega. Hún boðar Krist,
upprisinn og lifandi frelsara, svo að menn megi mæta honum sjálfum. Það
vil ég einnig fá að gjöra hér.
Kristur er upprisinn; Kristur er sannarlega upprisinn! Guði sé lof og
dýrð.
152