Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.1997, Side 183
Jónas Gíslason
Á þessum árum var Bjarni tvímælalaust einn höfuðverjandi hins
íslenzka málstaðar.
En honum var ljóst, að hann gat ekki þjónað tveimur herrum. Hann gat
ekki gjört hvort tveggja, varið tíma sínum í baráttu fyrir lausn
handritamálsins og stundað áfram ritstörf. Hann hafði gefið út fyrstu
skáldsögu sína, Gullnar töflur, sem hafði fengið ágæta dóma.
Við getum þakkað Bjarna M. Gíslasyni fyrir að fórna eigin frama til að
tryggja íslenzkan sigur. Eg fullyrði, að ekki er víst, að sú hefði orðið
niðurstaðan, ef Bjarni hefði valið eigin frama.
Mig langaði til að heyra Bjarna segja frá, hvernig þessir fundir fóru
fram. Gaman var að heyra hann segja frá, en hann er hæverskur, er
hann ræðir um sinn þátt í fundunum:
„Eg var oft kallaður til að mæta á fundum á seinustu stundu og hafði
lítinn tíma til undirbúnings. En ég gjörði ekkert annað en það, er hver
íslendingur hefði getað gjört.“
Eftir að andstæðingar íslenzks málstaðar höfðu flutt hástemmd erindi
um gildi handritanna fyrir danska menningu, bað Bjarni um orðið og steig
hóglátur i pontu.
Stundum gjörði hann skýrt og skilmerkilega grein fyrir helztu rökum
okkar í málinu, sem hann tíundaði lið fyrir lið.
En stundum beitti hann allt annarri aðferð.
Þá gekk hann í pontu og sagði:
„Nú langar mig að fara að gömlum og góðum íslenzkum sið og segja eina
af íslenzku sögunum, eins og þær voru sagðar á Islandi í margar aldir.“
Og svo hann sagði hann einhverja af styttri sögunum t.d. Gunnlaugs
sögu Ormstungu. Og hann sagði svo lifandi frá, að dauðakyrrö ríkti í
salnum, meðan hann sagði söguna.
Að henni sagðri, bætti hann aðeins við þessum fáu orðum:
„Þannig hafa sögurnar lifað á Islandi. Þannig gátu allir Islendingar
sagt sögurnar og geta enn.
Nú langar mig að biðja einhvern af talsmönnum hins danska málstaðar
að segja einhverja söguna á sama átt. Þeir hljóta að kunna að kunna
sögurnar, fyrst þær eru jafn ómetanlegur danskur menningararfur og af
er látið! “
Þá varð einatt fátt um svör og margur fundurinn endaði þannig.
Enginn danskur maður gat fetað í fótspor Bjarna, en mér er spurn: „Hve
margir Islendingar hefðu getað það? Eg er a.m.k. feginn, að slíks var
aldrei krafízt af mér. “
Og ég sé Bjarna enn fyrir mér á slíkum fundi, þar sem hann segir
fram íslenzkar fornsögur.
181