Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.1997, Qupperneq 26
„Að lifa í trú“
þá vaknar spurningin um inntak trúar okkar: Hverju eða hverjum trúum
við eða treystum? Því er ósvarað.
Mér virðast tveir kostir vera fyrir hendi. Annar er sá, sem öll
hefðbundin trúarbrögð viðurkenna, að reiða sig á æðri mátt eða máttarvöld.
Hinn er sá, sem áður er nefndur, að trúa á mátt sinn og megin. Ekki efa
ég að ýmsir - til að mynda Spinoza og Einar Benediktson - myndu vilja
hafna greinarmun þess sem tilheyrir mér og hinu sem er mér æðra og
meira - ég og alveran séum eitt þegar upp sé staðið. Látum það liggja á
milli hluta, en hugum að kostunum tveimur sem ég nefndi. Þeir eru
deginum ljósari og játningin sem þeim fylgir:
Annars vegar sú guðstrú sem viðurkennir valdleysi okkar og villu,
segir okkur syndugar verur sem vilji taka sér vald umfram eigin getu og
ráð, ráðskast með heiminn og rústa samkvæmt eigin löngun og heimsku,
berjast gegn þeim mætti sem skóp okkur til að taka þátt í sköpun
heimsins með sér. Trú þessi byggir á aldagamalli hefð og visku: Við eigum
allt undir guði, náð hans, miskunnsemi og órannsakanlegri forsjá.
Hins vegar er sú heimstrú sem veröldin öll lýtur um þessar mundir og
hefur alla tíð gert frá því maðurinn tók að leggja undir sig jörðina með
skynsemi sinni og tækni: Trú á mátt sinn til að gera heiminn að bærilegra
heimkynni okkar mannfólksins, ráða gangi mála, verða fullvalda og
fullkominn af eigin rammleik, bjóða náttúruöflunum byrginn.
Hvar stöndum við andspænis þessum kostum tveim? Hér hlýtur hver
og einn að taka afstöðu og útfæra hana á sinn persónulega hátt.
Fáum hef ég kynnst sem hafa jafn hiklaust og ákveðið játað guðstrú sína
og séra Jónasi Gíslasyni. Allt starf og hans líf hefur mér virst - frá því
ég kynntist honum fyrst fyrir 25 árum - bera vitni viðleitni til að rækta
guðstrú sína, kynna hana og játa í orði og verki á opinskáan og
heilsteyptan hátt. Þess vegna hef ég aldrei getað litið alveg á séra Jónas
sem sagnfræðing eða guðfræðing, heldur fyrst og fremst sem trúmann,
mann sem hefur þá köllun að rækta trú sína, miðla af henni og láta hana
lýsa sér og öðrum í völundarhúsi tilverunnar. Með þessu er ég ekki að
segja að séra Jónas birtist mér ævinlega í hlutverki prestsins sem vill
flytja boðskap kirkjunnar inn í hrjáðan og villtan heiminn. Að sjálfsögðu er
séra Jónas í senn prestur, sagnfræðingur og guðffæðingur og hann hefur
þegar skilað miklu starfi og góðu í þessum hlutverkum öllum, sem hann
sameinar í embætti vígslubiskups. Samt finnst mér að hlutverkið sem
hann valdi sér að rækja öðrum ffemur og gera að sínu stöðuga viðfangsefni
sé fólgið í persónulegri trú hans sjálfs.
Hvað er „persónuleg trú“? Nú er öll sönn trú persónuleg, trú mín eða
þín - hvort sem hún beinist að guði eða heiminum. En þetta felur um leið í
sér að það lifir hver og einn trú sína á einstakan hátt, skeytir um hana
24