Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.1997, Síða 79
Jónas Gíslason
VI
í þessa sálma, sem ortir eru út frá reynslu sálmaskáldsins sjálfs,
hefur íslenzk þjóð sótt styrk og huggun í erfiðleikum og raun, allt frá
Ragnheiði Brynjólfsdóttur biskups, er sálmaskáldið sendi sálmana
skrifaða eigin hendi, til okkar eigin kynslóðar. Hvað sem mætti í hinu ytra
eða innra lífi, vísuðu þeir veginn til þess Guðs, sem hafði sent kærleika
sinn í heim okkar manna. Með Passíusálmana að leiðarljósi, þurfti enginn
að óttast villu. Þeir voru hin örugga leiðsögn. Þeir eru ótaldir,
Islendingarnir, sem lærðu sálmana utanbókar til þess að hafa þá á
hraðbergi, hvenær sem þörf krefði. Engin önnur bók skipar viðlíkan sess
og Passíusálmarnir, nema ef vera kynni Biblían sjálf, og þó munu þeir
fleiri, sem lesið hafa Passíusálmana, því að einatt var Biblían dýr bók og
illfáanleg í landi okkar. Þess vegna var gildi sálmanna enn meira en ella
og engin bók önnur hefur oftar verið gefin út á Islandi en þeir.
Og það getur ekki verið nein tilviljun, að meðan íslenzk þjóð naut leiðsögu
þeirra Hallgríms Péturssonar og meistara Jóns Vídalíns, þá fundu engir
nýir erlendir kenningastraumar veg inn til íslenzkrar alþýðu. Þeir
reyndust sú brjóstvörn, sem hvergi bilaði í ólgu og straumkasti veraldar.
Og þótt margt hafi breytzt með íslenskri þjóð þau þrjú hundruð ár, sem
liðin eru, síðan Hallgrímur Pétursson dó, veit ég, að enn um ókomin ár og
aldir munu sálmar hans halda áfram að verða það leiðarljós, sem lýsir
okkur upp til himins Guðs. Og þeir munu meta þá mest, er sjálfir hafa
eignazt hina sömu reynslu og hann, og hafa fundið eigin allsleysi og
vanmátt, fundið sig dæmda frammi fyrir Guði og síðan fengið að reyna
dýpt þess gleðiboðskapar, sem fluttur er í Kristi Jesú. Þannig hefur það
verið gegnum kynslóðirnar, þannig er það enn og þannig mun það verða
enn um langa framtíð.
Þess vegna minnumst við hans í dag, 300 árum eftir andlát hans. Við
þökkum lofsöng hins fullreynda manns.
Við þökkum Guði líf og starf Hallgríms Péturssonar, og trúarvitnisburð
hans. Við blessum minningu hans. Og við biðjum þess, að Guð noti sálma
hans áfram til blessunar íslenzkri þjóð.
77