Skagfirðingabók - 01.01.1973, Blaðsíða 24
SKAGFIRÐINGABÓK
hægri hlið að ræflinum, með báða fætur fast saman og þó sinn
hvorum megin krítarstriksins, tók vinstri hendi um buxnastreng-
inn að baki sér. Hann hallaði sér til hægri, studdi hendinni á gólf-
ið, fikraði henni í átt að ræflinum, unz hann náði að festa svo fing-
ur á leppnum, að hann fylgdi, þegar hendin var dregin til baka.
Vinningurinn var í því fólginn að rísa á fætur með ræfilinn í hend-
inni án þess að snerta gólfið nema með hægri hendi og hægri
jarka. Reyndist það fáum fært.
Hinn leikurinn var á þessa leið: Ræfill var lagður á gólf og af
líkri gerð og í fyrri leiknum. Hendur þess, er ræfilinn skyldi rífa,
voru bundnar fyrir aftan bak. Hann átti svo að renna sínum fæti
til hvorrar hliðar og svo langt, að hann gæti rifið ræfilinn úr
svellinu með tönnunum. Ef ekki auðnaðist að ná því taki á ræfl-
inum, að honum yrði haldið meðan sá, er þrautina skyldi leysa,
reisti sig við, var ræfillinn fastur í svellinu. Næði sá, er reif, ekki
að reisa sig við, varð hann gliðsa, og þótti hvorugur kosturinn góð-
ur. Ekki var þetta á allra færi.
Að „reka naut frá garði" var frekar gamanleikur en íþrótt.
Þurfti þó mýkt til ef hún átti að vinnast. Sá er nautin átti að reka
tók sér prik í hönd og benti með því á veggjarholu eða hring
á þili, varð að standa svo nærri, að hann næði þangað með prikinu.
Þá átti hann að snúa sér 20 sinnum í hring svo hratt, sem kostur
var á en stinga svo prikinu í holuna eða hringinn, um leið og hann
nam staðar. Mun flestum hafa fyrir svima sakir reynzt holan tor-
fundin.
„Reisa horgemling". Nokkrar leiðir voru til þessa og flestar erf-
iðar. Hér skal sú talin, er Olafur Davíðsson lýsir, enda var hún
þekkt og iðkuð fram á þessa öld. Sá, er reisa vildi gemlinginn, sett-
ist flötum beinum á gólf, tók vinstri hendi í buxnastrenginn á
bakinu, — ef hendin var ekki bundin. Það þótti öruggast. Þá reisti
hann borðstól með hægri fæti, brá hægri hendi í hnésbótina og
seildist í snepilinn á hægra eyra. Þannig átti hann að rísa upp á
vinstri fót og hoppa svo þrjú skref áfram, án þess að missa takið
á sneplinum. Heimilt var að reyna þrem sinnum. Þá var fullreynt
og gemlingurinn dauður. Þá varð tilraunin sneypuför.
22