Skagfirðingabók - 01.01.1973, Side 122
SKAGFIRÐINGABÓK
að skýra frá því, að þeir ábúendur Glæsibæjar, sem hafa beygt sig
fyrir álögunum og lítið sem ekkert slegið af tjarnarstæðinu, hafa
efnazt þar og þeim farnazt að flestu leyti vel.
Bjarnböltur
A túninu norðan og vestan við bæinn Reynistað er afar hár og
stór hóll. Hann heitir Bjarnhöttur. Munnmæli segja, að í hólnum
sé grafið skip, aðrir segja kista full af gulli og gersemum. Vest-
an í háhólnum er aflöng iægð um 8—10 metrar á lengd. Er sagt,
að einhverjir fullhugar hafi grafið þarna og komið niður á kistu
harla mikla. Tókst þeim að koma böndum í koparhring mikinn,
sem var á kistulokinu, en þegar þeir höfðu hafið kistuna á loft,
slitnaði hringurinn úr kistunni, og þá varð þeim litið heim til
klaustursins. Sýndist þeim þá bærinn og kirkjan í björtu báli.
Hlupu þeir þegar felmtursfullir heim að slökkva bálið, en þegar
þeir komu niður af hólnum, hvarf allur eldur. Hafði heimafólk
orðið einskis vart. Sneru þá mennirnir aftur til gryfjunnar, en þá
var hún orðin hálffull af mold og sást ekki á kistuna.
Enn segir sagan, að álög hafi legið á hólnum, sem valda mundu
einhverjum ósköpum, ef við honum væri hreyft. Leizt því mönn-
unum ekki á blikuna og létu kyrrt liggja. Hefur enginn árætt
síðan að grafa í Bjarnhött eftir kistunni. En hringinn höfðu þeir
eftir til sannindamerkis og var hann settur í kirkjuhurðina á
Reynistað.
La?idsréttir
Landsréttir heitir örnefni í Varmalandslandi [í Sæmundarhlíð].
Eru það hamrar 10—12 faðma háir, en dragast í halla norður
og niður. Beggja megin við klettana eru djúpar skálar, vaxnar
töðugæfu grasi. Ekki má slá norðari skálina, því sé það gert, verð-
ur Varmalandsbóndi fyrir einhverjum óhöppum. Skál sú heitir
Bolli. Huldufólkssögur eru margar til um hamra þessa áður, en
nú eru þær flestar gleymdar.
120