Tímarit um menntarannsóknir - 01.06.2012, Side 33
33
Kennaraskólinn í Nääs og
fyrstu íslensku nemendur hans í
uppeldismiðaðri smíðakennslu
Gísli Þorsteinsson og Brynjar Ólafsson Háskóla Íslands, Menntavísindasviði
Ritrýnd grein
Tímarit um menntarannsóknir /
Journal of Educational Research (Iceland) 9, 2012, 33–59
Kennsla í uppeldismiðaðri smíði (slöjd) hófst á Íslandi um 1900. Hugtakið slöjd vísar
til hagnýtingar handverks í þágu uppeldis. Tilgangur slöjdsins var að nýta handverk
sem tæki í þjónustu alþýðumenntunar til að byggja upp persónuleika einstaklingsins,
s.s. til að efla siðvitsþroska hans, gáfur og iðni. Hugmyndafræði þessi breiddist út um
víða veröld á tuttugustu öld. Innleiðing hugmynda- og kennslufræði þessarar uppeldis-
stefnu, sem þáttar í íslenskri alþýðumenntun, byggðist að mestu á menntun nokkurra
Íslendinga, sem flestir voru kennarar, í kennaraskóla eins helsta frumherja stefnunnar,
Ottos Salomon í Nääs í Svíþjóð. Áhrif kennslu Salomons á upphafstíma uppeldismið-
aðrar smíðakennslu á Íslandi voru því mikil, enda sóttu allmargir kennarar hann heim á
þessum árum.
Salomon veitti uppeldismiðuðum handverksskóla fyrir verðandi kennara í Nääs í
Suður-Svíþjóð forstöðu. Skólinn varð síðan að alþjóðlegri þjálfunarmiðstöð fyrir smíða-
kennara árið 1875 (Bennett, 1926; Thorbjörnsson, 1990). Þeir kennarar sem tóku þátt í
námskeiðum í Nääs á árabilinu 1875 til 1917 (Bennett, 1937) byggðu starf sitt á kennsluað-
ferðum Salomons þannig að þær höfðu mótandi áhrif á upphaf smíðakennslu á Íslandi.
Salomon þróaði æfingakerfi sitt fyrir kennslu í uppeldismiðuðu handverki með því að
rannsaka vinnuferla og grandskoða smíðisgripi til þess að geta greint hinar dæmigerðu
aðferðir sem fagmenn notuðu. Kennslufræði hans byggðist á einstaklingsmiðaðri leið-
sögn sem var löguð að getu hvers nemanda. Nemandinn sem einstaklingur var miðdep-
illinn í kennslunni og stuðningur við heildstæða þróun allra hæfileika hans í fyrirrúmi,
og það átti svo seinna að gera hann að góðum borgara.
Greinin er byggð á leit höfunda og rannsókn þeirra á sögu þeirra einstaklinga er
stunduðu nám í Nääs um 1900. Við þessa vinnu nutu höfundar stuðnings sænskra og
danskra fræðimanna sem rannsakað hafa sögu slöjdsins á Norðurlöndum, en einnig
könnuðu þeir gamlar heimildir og bréf í menntasetri Salomons í Nääs, í sænsku þjóðar-
bókhlöðunni í Gautaborg og á söfnum á Íslandi.