Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2017, Page 10
9
heldur einnig um öfluga nýyrðasmíð. Árið 2015 efndu Samtökin ’78 því
til nýyrðasamkeppni þar sem leitað var bæði að íslenskum þýðingum á
enskum hugtökum og nýjum íslenskum orðum.17 Í þýðingunum sem birt-
ast í þessu hefti er meðal annars leitað í þann orðabanka en einnig í eldri
skrif á íslensku, svo sem fyrrnefnda grein Geirs Svanssonar. Geir gerði þar
mikilvægar tilraunir til að þýða ný hugtök tengd hinsegin fræðum og sum
þeirra hafa fest rætur í málinu, bæði meðal háskólafólks og aktívista, svo
sem kynusli og að skjöna eða hinsegja.18
Í þessu hefti birtist einnig myndaþáttur með völdum listaverkum sem
sýnd hafa verið í Galleríi 78 sem starfar í húsakynnum Samtakanna ’78 á
Suðurgötu 3. Eins og Magnús Gestsson rekur í inngangi að þættinum hafa
níu sýningar verið settar upp í Galleríi 78 síðan það opnaði árið 2015 og
það er uppbókað fram til ársins 2019, sem sýnir og staðfestir að gróskan
í myndlist hinsegin listamanna er mikil en ekki síður að meðal þeirra er
vilji til að sýna í sérstöku hinsegin galleríi; rými þar sem hinsegin reynsla
og tilvera er ekki aukaatriði heldur fær það pláss og þá athygli sem hún
krefst hverju sinni. Forsíðumynd Ritsins að þessu sinni er eitt þessara
verka: „Kona. Innsetning með jute reipi“ eftir Margréti Nilsdóttur. Um
er að ræða akrílmálverk sem sýnir nakinn kvenlíkama bundinn með reipi;
umfjöllunarefni sem oft er sett í samband við ofbeldi og misnotkun. Í
augum margra felur slík athöfn þó í sér kynferðislegan unað og jákvæða
upplifun, eins og sjá má á svip konunnar, og verkið er þannig hvort tveggja
í senn tjáning á reynslu sem oft er fordæmd og bein tilvísun til nýlegra
deilna innan hinsegin samfélagsins um hvort BDSM-hneigð geti fallið
undir hinsegin regnhlífina eða ekki. Reipið nær enn fremur út fyrir verkið,
út í raunheiminn, og undirstrikar hin beinu tengsl listarinnar við umhverfi
sitt, áhorfendur jafnt sem pólitík.
17 Sjá „Burið mitt er vífguma: hýryrði 2015“, Samtökin ’78, 17. nóvember 2015, sótt
7. september 2017 af https://www.samtokin78.is/frettir/nyjar-frettir/5908-buridh-
mitt-er-vifguma-hyryrdhi-2015. Einnig ber að nefna vefinn Hinsegin frá Ö til A
sem opnaði nýlega en þar eru fjölmörg hugtök tengd hinsegin veruleika skilgreind
á íslensku og nýjar eða nýlegar þýðingar prófaðar. Sjá Hinsegin frá Ö til A, sótt 22.
september 2017 af https://www.otila.is.
18 Kyngervisusli er í grein Geirs þýðing á titli bókar Judith Butler, Gender Trouble, en
orðið kynusli hefur fest í sessi sem íslenskt heiti á því sem á ensku er kallað „gender
bending“ eða „gender fuck“. Sögnin að skjöna nýtist vel, eins og áður segir, til að lýsa
því þegar eitthvað er afbyggt eða greint út frá hinsegin hugmyndafræði en í því sam-
hengi hefur einnig verið talað um að hinsegja. Sem dæmi má nefna málþingið „Nú
skal hinsegja“ sem haldið var í tengslum við Hinsegin daga í Reykjavík árin 2015
og 2016. Sjá Facebook-síðu málþingsins: https://www.facebook.com/Hinsegja/.
Að HINSEGJA HEIMINN