Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2017, Síða 15
14
aukaatriði að það væri tjáð að fullu og að ytra byrði líkamans samræmdist
kynvitund (e. gender identity) þeirra. Það að fólk telji að kynið sé hluti af
sannleika þess og innsta sjálfi er hins vegar í andstöðu við hugmyndir um
flæði kyns og að það sé breytingum undirorpið. Greinin sem hér fer á eftir
sprettur út frá þeirri hugsun að skrif á sviði hinsegin fræða hljóti að virða
bæði sjónarmiðin, því að öðrum kosti mistakist þeim að skýra veruleikann
og hætti jafnvel á að skipta einu skaðlegu normi út fyrir annað.
Þeir sem voru samankomnir í Norræna húsinu eftir Feikaðar fullnæg
ingar voru í mörgum tilvikum vel að sér í hinsegin fræðum og tjáðu sig
um mikilvægi þess að afbyggja kynið og sýna fram á að það sé blekking.
Einn fyrsti fræðimaðurinn til að vekja athygli á hugmyndum sem þess-
um var bandaríski heimspekingurinn Judith Butler, en rit hennar Kynusli
(Gender Trouble, 1990) er jafnan talið hafa markað straumhvörf og hún sjálf
álitin ein af forgöngumanneskjum hinsegin fræða. Í Kynusla grefur Butler
undan þeirri hugmynd að nokkurt náttúrulegt samband sé milli þess sem
venja hefur skapast fyrir að aðgreina sem kyn (e. sex) og kyngervi (e. gen
der). Hún heldur því einnig fram að snúa megi á haus orsakasamheng-
inu sem almennt er gert ráð fyrir að sé þar á milli (s.s. að kyngervi leiði
af kyni), og skoða megi kyngervi sem „röklega/menningarlega aðferð til
þess að framleiða ,kynjað eðli‘ eða ,náttúrulegt kyn‘ og gefa því stöðu þess
sem kemur á undan orðræðu.“1 verkið er rammpólitískt, en með því að
afbyggja kynjatvíhyggju, sýna fram á að kyn sé „gjörningur“ (en þar byggir
hún á „talathafnarkenningu“ J. L. Austins og túlkun Jacques Derrida á
henni2) og hvetja til svokallaðs „kyngervisusla“ var markmið Butler að
1 „[…] the discursive/cultural means by which ,sexed nature‘ or ,natural sex‘ is
produced and established as ,prediscursive‘.“ Judith Butler, Gender Trouble: Fem
inism and the Subversion of Identity, New York & London: Routledge, 2007, bls. 10.
Butler þróar þessar hugmyndir áfram í Efni(s)legum líkömum (Bodies That Matter,
1993) þar sem hún hafnar muninum sem er gerður á kyni og kyngervi, og greinir
hið fyrrnefnda einnig sem menningarlegan tilbúning. Hin afbragðsgóða þýðing á
titli þeirrar bókar nær að fanga orðaleikinn og er fengin frá Geir Svanssyni, sem
skýrir hana á eftirfarandi hátt: „Í bókinni skoðar hún hvaða líkamar eru mikilvægir
í ráðandi orðræðu en líka hvernig og hvaða líkamar eru úr efni eða efnisgerðir;
s.s. efnilegir líkamar (sem skipta máli) og líkamar úr efni (efnislegir): Efni(s)legir
líkamar. – Þeir líkamar sem efnisgera eða eru holdtaka norms fyrirskipaðrar gagn-
kynhneigðar eru þeir líkamar sem skipta máli.“ Sjá Geir Svanson, „Ósegjanleg ást.
Hinsegin sögur og hinsegin fræði í íslensku samhengi“, Skírnir haust 1998, bls.
476–512, hér bls. 485, nmgr. 24.
2 Geir Svansson, „Kynin tvö/Kynstrin öll: Um kynusla, kyngervisútlaga og efni(s)
legar eftirmyndir“, Flögð og fögur skinn, ritstj. Jón Proppé, o.fl., Reykjavík: Íslenska
menningarsamsteypan art.is, 1998, bls. 124–140, hér bls. 138–139.
GuðRún Elsa BRaGadóttiR