Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2017, Blaðsíða 42
41
kvenna til að lúta því og feðraveldinu var það þema sem áleitnast var.7
Árið 2003 birti Dagný Kristjánsdóttir grein um samkynhneigð kvenna í
bókmenntum og listum þar sem hún benti á að mjög fátt væri vitað um
það efni í íslensku samhengi fyrir tuttugustu öld og að ekkert væri hægt
að fullyrða um hvort til væru á Íslandi „óuppgötvaðar heimildir um ástir
og örlög íslenskra lesbía á öldum áður“ auk þess sem enginn hefði (fram
að þeim tíma) „leitað kerfisbundað að slíkum heimildum“.8 Rannsóknir
á hinsegin fræðum og hinsegin sögu eru núna lengra á veg komnar en
hinsegin veruleiki kvenna fyrr á öldum er þó enn að miklu leyti ókannað
svið. Nýverið kom út greinasafn sérstaklega helgað hinsegin sögu þar sem
lögð er áhersla á að „birtingarmyndir og merking hinsegin kynverundar
hefur tekið miklum breytingum í gegnum tíðina og fólk er ekki hinsegin
í dag á nákvæmlega sama hátt og fólk var hinsegin fyrir 100 árum síðan.“9
Þar er einnig bent á „að kynverund, kynhneigð og kynvitund taki á sig
ólíkar myndir og hafi mismunandi merkingu á öðrum tímum og í öðrum
heimshlutum“.10 Það er því rétt að stíga varlega til jarðar og forðast að
draga afgerandi ályktanir um kynhneigð og kyngervi fólks í fortíðinni út
frá nútímaskilgreiningum, ekki síst í tilfelli Guðrúnar og kvenna á nítjándu
öld þar sem heimildafæð og skortur á rannsóknum er staðreynd.
Hafdís Erla Hafsteinsdóttir bendir á að hugtakið hinsegin (e. queer)
sé annars vegar „sjálfsmyndarhugtak“ en hins vegar „frá akademísku
sjónarhorni [...] greinandi hugtak sem beinir sjónum sínum að því sem
fellur utan við viðurkennd gildi og viðmið í kynferðislegum og félags-
7 Sjá Soffía Auður Birgisdóttir, „Skyldan og sköpunarþráin“, eftirmáli við Sögur ís
lenskra kvenna 1879–1960, bls. 913–971.
8 Dagný Kristjánsdóttir, „Hinsegin raddir. Um sannar og lognar lesbíur í bókmennt-
um og listum“, Skírnir haust/2003, bls. 451–481, hér bls. 457. Dagný vísar í samtal
við Erlu Huldu Halldórsdóttur sagnfræðing sem segist ekki hafa rekist á hinsegin
veruleika í bréfum íslenskra kvenna frá nítjándu öld, sem hún hefur rannsakað
sérstaklega. Erla Hulda tekur þó fram að hún hafi ekki verið að leita eftir slíku og
því möguleiki á að hún hafi ekki borið kennsl á slíkar vísbendingar, sjá neðanmáls-
grein nr. 22. Ég þakka Dagnýju fyrir yfirlestur á greininni í handriti. Þess má geta
að Ásta Kristín Benediktsdóttir, Hafdís Erla Hafsteinsdóttir og Íris Ellenberger
hafa, í samstarfi við Samtökin ’78, hrundið af stað heimildasöfnunarverkefninu
„Huldukonur: Hinsegin kynverund kvenna í heimildum“. Sjá vefsíðu verkefnisins,
https://huldukonur.wordpress.com.
9 Íris Ellenberger, Ásta Kristín Benediktsdóttir og Hafdís Erla Hafsteinsdóttir, inn-
gangur að Svo veistu að þú varst ekki hér, bls. 9–20, hér bls. 11.
10 Sama heimild, bls. 13.
HIð „SANNA KYN“ EðA vERULEIKI LÍKAMANS?