Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2017, Qupperneq 51
50
og síðar í Flatey á tíma þegar mannlíf þar stóð með mestum blóma. Ári eftir
að Guðrún flytur vestur er ráðin bústýra í Otradal, Ingibjörg Andrésdóttir
úr Flatey, og fylgdi hún séra Þórði og „tók tryggð við hann og var honum
betri en engin, enda yfirgaf hún hann ekki meðan hann var á lífi.“45 Árið
1855 hefur enn bæst við fólk á heimilið en þá eru fjórtán manns skráðir á
prestssetrinu, þar af tvö börn og tveir unglingar, og árið sem Guðrún fer
frá séra Þórði búa þar sautján manns.46
En hvers vegna vildi Þórður kvænast Guðrúnu ef „hún réð honum
frá því að giftast sér“, sé það rétt sem Málfríður segir? Nú er engin leið
að vita hvort Þórði hafi verið kunnugt um að kynferði Guðrúnar væri
tvírætt, hafi svo verið, en vafalaust hefur verið nokkur upphefð fólgin í að
mægjast við fjölskyldu Sveinbjarnar Egilssonar rektors. Í Dægradvöl kemur
fram að móðurbróðir Þórðar, Helgi Thordersen, dómkirkjuprestur og
síðar biskup, hafi verið náinn vinur Sveinbjarnar47 og því er ljóst að góður
kunningsskapur var með fjölskyldunum og ef til vill hefur það átt sinn þátt
í ráðahagnum. Fljótlega varð þó ljóst að hjónaband Guðrúnar og Þórðar
var ekki farsælt enda entist það aðeins í áratug. Helgi Guðmundsson segir
að „brátt [hafi komið] í ljós, að þau hjón ættu ekki lund saman, og urðu
samfarir þeirra hinar erfiðustu“ og hann heldur áfram:
En ósamlyndi þeirra var talið Guðrúnu að kenna, því hann vildi
gera henni allt það til geðs, sem hann gat. Furðaði menn á því, að
Guðrún skyldi ekki geta lynt við slíkt prúðmenni og glæsimenni
sem séra Þórður var. Héldu því nokkrir, að hún væri ekki gerð sem
aðrar konur, og hafa gengið ýmsar sögur, sem áttu að sanna þetta.
En þau hjón áttu ekkert barn saman.48
Þegar Guðrún fór frá Þórði „þótti mönnum hún sneyða mjög heimilið af
þeim hlutum, er mikil eign var í og hún gat komizt á brott með“:
45 Oscar Clausen, „Séra Þórður „hinn sterki““, bls. 83. Ýmsar staðreyndavillur eru í
þessum þætti Oscars Clausen, t.a.m. heldur hann því fram að Guðrún hafi yfirgefið
séra Þórð strax árið 1852 en af kirkjubókum má sjá að hún fór ekki fyrr en 1860.
Ingibjörg var ógift en átti tvö börn með manni sem foreldrar hennar meinuðu henni
að eiga og hafði hún þau með sér vestur í Otradal.
46 Sjá ÞÍ, manntal fyrir Otrardal í Arnarfirði 1855 og 1860. Bæjarnafnið er í dag ritað
Otradalur en var áður Otrardalur og er þannig á vefnum manntal.is.
47 Benedikt Gröndal, Dægradvöl, bls. 68–69.
48 Helgi Guðmundsson, Vestfirskar sagnir II, bls. 43.
soffía auðuR BiRGisdóttiR