Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2017, Síða 128
127
heimurinn sem þær lifa og hrærast í sé til í raun og veru; þeir leyfa sér með
öðrum orðum að blekkjast af skáldskapnum. við slíkan lestur upplifa les-
endur gjarnan tilflutning (e. transportation) í annan heim.22 Þegar slíkt ger-
ist finnst þeim þeir ekki einvörðungu horfa á skáldaða heiminn úr fjarlægð
heldur fá þeir einnig á tilfinninguna að þeir séu sjálfir staddir í söguheim-
inum og upplifa það sem þar gerist eins og þeir væru í þeim heimi sem
við köllum raunverulegan. Þetta getur gerst vegna þess að fagurfræðilega
blekkingin hefur „eins og“ einkenni þar sem hún kallar fram tilfinning-
ar sem eru sambærilegar þeim sem menn finna fyrir við raunverulegar
aðstæður.23 varðandi fagurfræðilegu blekkinguna er þó mikilvægt að hafa
í huga að hún er alltaf tvíþætt og aldrei fullkomin því lesendur láta blekkj-
ast á sama tíma og þeir gera sér grein fyrir að þeir eru að lesa skáldskap.
Þess utan er ekki víst að lesendur láti blekkjast frá upphafi lesturs til enda.
Fagurfræðilega blekkingin getur sem sagt verið breytileg, til dæmis eftir
einstaklingum og ólíkum tímabilum en einnig í sjálfu viðtökuferlinu.
Í ljósi þess að blekkingin er tvíþætt geta lesendur nefnilega látið blekkjast
og ekki, og gert slíkt til skiptis við lestur á einni og sömu sögunni.24 Með
öðrum orðum geta þeir dottið inn og út úr söguheiminum.
Fagurfræðilega blekkingin er ferli sem verður til vegna samspils nokk-
urra þátta. Það á sér stað í huga viðtakandans en er stjórnað af listaverkinu.
Ef um er að ræða lestur skáldsögu stjórnast blekkingin af sögunni sem
lesin er. Lesandinn og skáldsagan eiga það sameiginlegt að vera mótuð
af menningarlegu og sögulegu samhengi sem brýnt er að gefa gaum því
hvort tveggja kann að hafa áhrif á upplifun lesandans. En þó samhengið
sé mikilvægur þáttur skiptir viðtakandinn sjálfur enn meira máli því aldur
hans, kyn, áhugamál, menningarlegur bakgrunnur og hæfni til að lesa
skáldskap eru allt þættir sem geta haft áhrif á hvort fagurfræðilega blekk-
22 Um tilflutning má t.d. fræðast í M. C. Green, T. C. Brock og Geoff F. Kaufman,
„Understanding Media Enjoyment: The Role of Transportation Into Narrative
Worlds“, Communication Theory 4/2004, bls. 311–327.
23 Þessi hugmynd kallast á við skoðanir sálfræðingsins og rithöfundarins Keith Oatley
en hann hefur endurskoðað skilning manna á mímesis–hugmynd Aristótelesar. Í
stað þess að segja skáldskapinn vera eftirmynd veruleikans hefur Oatley líkt honum
við draum og ímyndun og þar með lagt áherslu á upplifun viðtakandans á verkinu
og þátt hans í sköpun þess. Sjá Keith Oatley, „Að skrifaoglesa: Framtíð hugrænna
skáldskaparfræða“, þýðendur Jóhann Axel Andersen og Sigrún Margrét Guð-
mundsdóttir, Ritið 3/2012, bls. 163–181, hér bls. 169–171.
24 Sjá Werner Wolf, „Aesthetic illusion as an effect of fiction“, Style 3/2004, bls.
325–350, hér bls. 327–329.
„EINS OG ÆvINTÝRI“