Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2017, Blaðsíða 137
136
Í kjölfarið hvíslar hann: „Nú ert þú orðin tíu ára, Rósa mín“ (29). Rósa er
jafngömul og Lenni var þegar hann fann myndina af Rósu Cordovu og
honum reis hold í fyrsta sinn. Hluti ástæðunnar að hann kýs að fara kann
því að vera sú að Rósa sé orðin eða sé að verða kynþroska. Í næsta kafla
lýsir Lenni líðan sinni eitt kvöldið þegar hann sat í rökkrinu en þá var
„einsog eldur logaði skyndilega í brjósti hans, logaði og brynni af miklum
ofsa, einsog dregið væri frá augum hans, einsog allt fengi nýja rödd, eins-
og allt talaði til hans“ (30). En hann segir Rósu að þráin og ástríðan hafi
kveikt þessa geðshræringu enda hafi hann fengið „ærandi hjartslátt, byrjað
að ganga um gólf, þramma um gólf, þangað til hann varð lafmóður“ (30).
Líkamsástandið tengir hann þörfinni að fara og finna Rósu Cordovu; fara
og finna ástina. Hann segir það ekki berum orðum en ljóst er að hann hefur
verið heltekinn af losta og þrá og því má túlka ákvörðun hans á þá leið að
návist við Rósu sé of mikil freisting, hún er of lík Magdalenu. Síðar í sögunni
kemur fram að nokkru áður en Lenni tilkynnir Rósu ákvörðun sína brýnir
hann fyrir henni að njóta lífsins en þá er aftur ýjað að yfirvofandi hættu þess
að Lenni muni ekki ráða við sig í nærveru Rósu en í sögunni segir:
Hann var líka glaður á meðan hann talaði enda var þetta áður en
hann sá sig knúinn til að yfirgefa hana, áður en hann fékk fiðring-
inn í fæturna, vindinn undir vængina og hin miskunnarlausa þrá rak
hann af stað í ferðalagið. Áður en, já, áður en … (81; leturbr. mín)
Bæði endurtekningin „áður en“ og þrípunkturinn gefa fyrirheit um hvað
gæti gerst ef Lenni yrði áfram á Íslandi. Hann veit það sjálfur og hann
elskar Rósu of mikið til að taka sénsinn. Ástæða þess að Lenni yfirgefur
Rósu er sú að hann gerir allt fyrir ástina, en að vísu ekki fyrir ástina á Rósu
Cordovu eins og reynt er að telja lesendum trú um heldur fyrir ástina á
Rósu Lennadóttur. Líta má svo á að ákvörðun Lenna sé fyrst og fremst af
siðrænum toga en í sömu mund kann hún einnig að vitna um flótta og að
hann sé meðvitaður um að hafa kenndir sem margir fyrirlíta.
Frekari vísbendingar
Í sögunni má finna fleiri vísbendingar um óæskilega ást Lenna á Rósu en
nú þegar hafa verið taldar upp. Fyrir það fyrsta má nefna að Rósurnar tvær
renna stundum saman í huga Lenna. Hann skírir dóttur sína eftir Rósu
Cordovu en strax í upphafi bókar kemur fram að Lenni telji Rósu yngri
GuðRún stEinÞóRsdóttiR